29.10.2005 21:43

Laugardagur, 29. 10. 05.

Ók austur í Vík í Mýrdal, eða nánar tilgreint að Höfðabrekku, þar sem ég flutti erindi á fundi Félags íslenskra rannsóknarlögreglumanna um sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu og tók síðan þátt í pallborðsumræðum með öðrum frummælendum.

Mér kom á óvart á leiðinni austur, hve mismikill snjórinn var en mest hafði snjóað við Hvolsvöll og í Fljótshlíðinni komst ég ekki akandi heim heldur varð að fá góðan nágranna til að ryðja heimtröðina fyrir mig. Fyrir austan Skóga hafði hins vegar lítið snjóað og Mýrdalurinn var auður.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur tekið við af DV að leita að upplýsingum um, hverjir hafi svonefnda diplómatapassa, það er sérstaka gerð vegabréfa. Ég átta mig ekki á því, að hverju er verið að leita með þessum fyrirspurnum DV og nú Marðar á alþingi. Ég veit satt að segja ekki, hvort þingmenn eigi rétt á slíkum vegabréfum, ráðherrar geta vafalaust óskað þeirra. Síðan ég varð þingmaður eða ráðherra hef ég ekki notað slíkt vegabréf, en þó komist allra minna ferða hindrunarlaust og án vandræða við landamæri. Telja DV og Mörður, að um einhverja misnotkun á þessum vegabréfum sé að ræða eða við útgáfu þeirra?