30.4.2005 14:17

Laugardagur, 30. 04. 05.

Fór og sá kvikmyndina Der Untergang, sem sýnd er á kvikmyndahátíð í Regnboganum. Myndin sýnir síðustu daga Hitlers á einstaklega raunsæjan hátt. Það var við hæfi að sjá þessa mynd þennan dag, þegar rétt 60 ár voru liðin frá dauða Hitlers fyrir eigin hendi.

Á sínum tíma, þegar ég starfaði hjá Almenna bókafélaginu vann ég að því að gefa út bókina Síðustu dagar Hitlers eftir Hugh Trevor-Roper í þýðingu Jóns R. Hjálmarssonar. Sagnfræðingurinn Trevor-Roper var fenginn af bresku ríkisstjórninni til að skrá skýrslu um örlög Hitlers strax að lokinni síðari heimsstyrjöldinni til að í eitt skipti fyrir öll væri tekinn af allur vafi um, að Hitler væri allur og til að koma í veg fyrir, að goðsagnir yrðu til um örlög hans og Evu Braun eða annarra, sem voru með einræðisherranum síðustu daga hans.

Kvikmyndin Der Untergang fjallar um þetta sama efni á trúverðugan hátt og lögð er áhersla á að ganga ekki lengra í frásögninni en unnt er að styðja með heimildum.

Þótti mér myndin mjög áhrifamikil ekki síður en bókin forðum daga.