19.4.2005 15:45

Þriðjudagur, 19. 04. 05.

Fórum árla dags og heimsóttum kvennafangelsi, fangasjúkrahús og karlafangelsi í Bangkok. Þetta var einstaklega fróðleg ferð, þar sem við fengum tækifæri til að ræða við fangaverði og lækna og auk þess fanga, sem gátu talað ensku. Þarna var til dæmis Breti, sem hafði verið dæmdur í 25 ára fangavist fyrir heróín-smygl. Hann kaus frekar að eyða tíma sínum í þessu fangelsi en verða sendur í fangelsi í Bretlandi. Hann sýndi okkur hvernig fangar unnu myndlistarverk, þá lék hann einnig í hljómsveit, sem lék tælenska tónlist.

Fangar, sem dæmdir eru til lífstíðar, eru í fangeisi til lífstíðar, þess vegna er líknardeild á sjúkrahúsinu og heimsóttum við hana auk skurðdeildar og tannlæknadeildar.

Tæplega 5000 konur voru í kvennafangelsinu og var okkur sagt, að 26 svæfu saman á gólfinu í hverjum svefnsal, sem var um 40 fermetrar og við mikla ásókn í fangelsin væru allt að 50 í einum slíkum sal eða herbergi. Hundruð kvenna sátu aðgerðarlausar í skugga í hitanum, en ég sá einnig hóp kvenna stunda qi gong æfingar og var sagt, að þær væru einkum fyrir þær, sem væru komnar til ára sinna.

Um 80% fanga í Tælandi sitja inni vegna fíkniefnabrota.