Sunnudagur, 24. 04. 05.
Hitinn í Bangkok hefur verið mikill - milli 35 og 40 gráður alla dagana. Heppilegt er að vera nærri neðanjarðarbrautarstöð og þurfa því ekki að vera lengi utan dyra á leiðinni frá hóteli á fundarstað.
Fundahöld héldu áfram í allan dag á ráðstefnunni og í hádegishléi sátum við sérstakan kynningarfund hjá fyrirtæki, sem sérhæfir sig í upplýsingaöflun um alþjóðleg fjármálaviðskipti.
Um kvöldið var málsverður í boði dómsmálaráðherrahjóna Tælands. Var hann haldinn utan dyra í háskólagarði og þótt sólin væri sest var hiti mikill og ekki síður raki.