5.4.2005 14:28

Þriðjudagur, 05. 04. 05.

Klukkan 09.00 hófst fundur í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn með landstjórninni og helstu embættismönnum hennar um Evrópumálefni. Jóannes Edesgaard lögmaður setti fundinn, eftir að allir höfðu sungið ættjarðarlag, og skýrði frá því að landstjórnin hefði ákveðið að efna til málþinga fyrir æðstu stjórnendur landsins til að móta síðan framtíðarstefnu. Að þessu sinni vorum við þrír, sem fluttum erindi: Claus Grube, sendiherra Danmerkur hjá Evrópusambandinu. William Rossier, framkvæmdastjóri EFTA, auk mín. Erindi mitt er hér á síðunni.

Síðdegis gafst okkur tækifæri til að heimsækja þinghúsið og ræða óformlega við þingmenn, þar á meðal Edmund Joensen, forseta þingsins.

Einnig skrapp ég yfir til Kirkjubæjar en þangað hef ég ekki komið síðan ráðstafanir hafa verið gerðar til að verja kirkjurústina með nýsmíði.