Mánudagur 07. 03. 16
Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrv. utanríkisráðherra og einn ákafasti talsmaður ESB-aðildar Íslands, hefur horfið frá fyrri skoðun sinni um nauðsyn aðildar og í raun snúist harkalega gegn Evrópusambandinu eins og þessi orð á ruv.is í dag sýna:
„Hér talar maður sem var harvítugasti talsmaður þess að við eftir hrun gengjum í samfélag lýðræðisríkja, Evrópusambandið. Ég hef endurskoðað þá afstöðu. Einfaldlega vegna þess að þegar ég horfi á Evrópu, þá sé ég Evrópusamband sem er nánast í sjálfsmorðsleiðangri vegna þess að pólitíska forystan hefur algjörlega brugðist - og það er kreppa eftir kreppu eftir kreppu. Peningasamstarfið er byggt á röngum grunni og stenst ekki. Það mun ekki standast nýtt áhlaup.
Sú stefna sem Evrópusambandið hefur rekið undir forystu Merkel gagnvart þeim þjóðum sem fóru verst út úr hruninu (þá er ég að tala um Grikkland, Kýpur, Íberíuskagann og Írland) er rugl! Tómt efnahagslegt rugl! Og ekki boðleg. Frammistaða Evrópusambandsins gagnvart þeirri áraun sem fylgja flóttamannahræringum um allan heim sýnir algjört pólitískt forystuleysi, alltaf viðbrögð við atburðum eftir á, og skammarlega lítilmennsku. […] Það þýðir ekkert að tala um að ganga inn í brennandi hús. […] Við göngum ekki inn í brennandi hús núna. Slökkvið fyrst eldana.“
Í dag komu leiðtogar ESB-ríkjanna saman til fundar í Brussel með forsætisráðherra Tyrklands til að ræða nánara samstarf til að stöðva straum flótta- og farandfólks. Af hálfu ESB hafa Tyrkjum verið boðnir 3 milljarðar evra til að búa í haginn fyrir fólkið sem yrði áfram í landi þeirra. Nú kemur í ljós að Tyrkir ætla að nýta sér neyðina til að knýja meira fé úr sjóðum ESB sér til handa, það er allt að 3 milljarða til viðbótar auk þess sem ESB blási nýju lífi í aðildarviðræðurnar við Tyrki sem hafa staðið árum og jafnvel áratugum saman.
Í Frankfurter Allgemeine Zeitung birtist frétt síðdegis sem ber með sér að ráðamönnum ESB sé brugðið vegna nýrra krafna Tyrkja.
Svo virðist sem forseti og ríkisstjórn Tyrkland herði markvisst pólitísk tök sín. Fyrir utan að herja á Kúrda í skjóli borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi og setja fjölmiðlun skorður á nú að nýta neyð flóttafólks til að sauma að Evrópusambandinu.
Kröfur Tyrkja munu auka á spennu innan ESB en innan sambandsins hafa menn gert sér vonir um að með aðstoð Tyrkja sé unnt að breiða yfir ágreininginn milli Grikkja og Austurríkismanna vegna lokunar norðurlandamæra Grikklands að frumkvæði Austurríkismanna.