22.3.2016 18:40

Þriðjudagur 22. 03. 16

Hryðjuverkin í Brussel vekja enn spurningar um hvernig tryggja beri öryggi hins almenna borgara þegar vegið er að því á þann veg sem menn hafa orðið vitni að í París 13. nóvember  2015 og nú í Brussel.

Í París voru skotmörkin veitingastaður, íþróttaleikvangur og tónleikahús.  Alls féllu 130 manns. Í Brussel var ráðist á flugstöð og lestarstöð og á þessari stundu er tala fallinna 34.

Eftir að ráðist var á almenning í París var hæsta viðbúnaðarstig innleitt í Brussel á meðan leitað var að samverkamönnum þeirra sem unnu Parísar-ódæðið. Brussel var í lamasessi, ef þannig á orða það, í nokkra daga.

Föstudaginn 18. mars fannst einn árásarmannanna í París loks í Brussel. Hann var handtekinn auk nokkurra samverkamanna sinna. Krefjast Frakkar að fá hann framseldan.

Séu tengsl á milli handtökunnar á föstudag og þess sem gerðist í Brussel í dag sýnir það að Ríki íslams sem segist bera ábyrgð á árásunum ræður yfir hraðvirku og öflugu kerfi til gagnaðgerða telji það að sér eða mönnum sínum vegið. Árásirnar í Brussel sýna einnig að markmið þeirra er skapa sem mestan usla og ótta og reyna á þolmörk lögreglu og sjúkraliðs.

Miðað við viðbrögðin í Belgíu eftir árásina í París er einkennilegt að ekki skuli hafa verið innleitt þar hæsta viðbúnaðarstig strax eftir handtökuna á föstudag. Hvort það hefði komið í veg fyrir hina fólskulegu árás skal ósagt látið, það hefði þó örugglega ekki auðveldað hana.

Leyniþjónusta og lögregla Belgíu hafa greinilega verið grandalaus um hættuna sem var á næsta leiti þrátt fyrir allt sem á undan er gengið – eða kannski vegna þess.

Íslensk stjórnvöld hljóta að beita öllum ráðum sem þau hafa til að fylgjast með hættum sem kunna að steðja að hinum almenna borgara. Séu samgöngumiðstöðvar á háannatíma orðnar að skotmarki hryðjuverkamanna er aðeins einn staður á Íslandi sem dregur að sér athygli þeirra, flugstöð Leifs Eiríkssonar. Um hana fara einnig meira en 90% allra sem koma til landsins eða fara frá því.

Nýta ber flugstöðina til hins ítrasta til eftirlits með ferðum fólks. Í því efni ber í senn að nýta fullkomnustu tækni og vel þjálfaðan mannafla sem svarar til þess fjölda sem um stöðina fer. Í gæslu af því tagi felst besta varðstaðan um öryggi hins almenna borgara hér á landi.