Miðvikudagur 30. 03. 16
Á mbl.is má lesa í dag:
„Samþykkt var á fundum þingflokka stjórnarandstöðuflokkanna sem fram fóru síðdegis í Alþingishúsinu að lögð verði þingsályktunartillaga um þingrof og nýjar kosningar þegar þing kemur saman í næstu viku að loknu páskaleyfi. Áður en þingflokkarnir funduðu fór fram sameiginlegur fundur formanna og þingflokksformanna stjórnarandstöðuflokkanna.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort tillaga um vantraust á ríkisstjórnina verður lögð fram í framhaldinu en það verður skoðað nánar á næstunni.“
Áður en fréttin birtist hafði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður pírata, stolist til að segja frá niðurstöðu formannafundarins í samtali á rás 2. Hún virðist ekki þurfa bera neitt upp við þingflokk sinn enda kunn fyrir að fara sínu fram.
Að stjórnarandstaðan hafi samþykkt að leggja fram tillögu um þingrof og nýjar kosningar ber með sér að ágreiningur hafi verið um málsmeðferðina og leitað að leið sem ekki hefur verið farin áður.
Í aðdraganda fundar flokksleiðtoganna bar hæst hugmyndir um að flutt yrði tillaga um vantraust á forsætisráðherra eða um að kjörin yrði rannsóknarnefnd. Fréttablaðið birti forsíðufrétt um fyrirhugaðan fund leiðtoga stjórnarflokkanna í dag. Þar er vitnað í orð Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, sem sagðist ekki útiloka tillögu Svandísar Svavarsdóttur, þingflokksformanns vinstri grænna, um rannsóknarnefnd. Fréttblaðið spurði Svandísi hvort líkurnar á að vantraust yrði lagt fram hefðu aukist hún sagði að líkurnar á að ríkisstjórnin áttaði sig á því að hún þyrfti að taka saman föggur sínar hefðu aukist. „Við þurfum kosningar,“ sagði Svandís.
Velta má fyrir sér hverjir hafi verið með í ráðum þegar stjórnarandstöðuflokkarnir tóku ákvörðun um að fara þá óvenjulegu leið að flytja tillögu um þingrof í stað tillögu um vantraust á forsætisráðherra eða ríkisstjórnina sem leitt hefði til þingrofs og kosninga hlyti hún samþykki. Hafi það nokkru sinni gerst að stjórnarandstaða flytti tillögu um þingrof er fordæmisins ekki getið fræðiritum um stjórnskipun eða þingræði.
Að aðstæður í stjórnmálum séu svo sérstakar nú að brjóta þurfi blað í stjórnskipunarsögunni vegna þeirra er vandséð. Hvað sem líður samþykkt alþingis um þingrof er álitamál hvort forsætisráðherra sé skylt að bera málið upp við forseta hins vegar yrði forsætisráðherra skylt að biðjast lausnar yrði samþykkt á hann vantraust og leiddi það vafalaust til stjórnarkreppu og síðan þingrofs og kosninga.