31.3.2016 20:45

Fimmtudagur 31. 03. 16

Steingrímur J. Sigfússon (VG) hefur setið á alþingi síðan 1983 (33 ár). Hann sat í Kastljósi í kvöld og ræddi við Vigdísi Hauksdóttur, þingmann Framsóknarflokksins.  Snerust umræðurnar um leyndarmálin úr fjármálaráðherratíð Steingríms J. sem verða lokuð í læstum skápum í meira en eina öld nema tillaga framsóknarmanna um afléttingu leyndarinnar nái fram að ganga. Lýsti Steingrímur J. sig samþykkan því. Vigdís nefndi einnig lista innan úr bankakerfinu í tíð Steingríms J. um flokkun fyrirtækja sem ætti að birta.

Undir lokin barst talið að hinni furðulegu tillögu stjórnarandstöðunnar til þingsályktunar um þingrof. Tillagan virðist hugdetta Birgittu Jónsdóttur pírata sem gefur sig út fyrir að hafa sérstakan áhuga á stjórnarskránni. Tillagan rúmast þó ekki innan stjórnlaganna þar sem þingrofsvaldið er í höndum forsætisráðherra en ekki alþingis.

Þegar Vigdís vakti máls á ákvæðum stjórnarskrárinnar og vandkvæðum fyrir stjórnarandstöðuna vegna hennar sagði Steingrímur J.: En er ekki þingræði hér.

Fyrir nokkrum árum kom út fræðirit um þingræðið að tilstuðlan alþingis. Sé það skoðað verður ekki séð að þar sé einu orði minnst á að alþingi geti rofið sig sjálft og það falli undir þingræðið. Vilji alþingi koma ríkisstjórn frá völdum eins og virðist markmiðið með tillögu stjórnarandstöðunnar er flutt vantraust en ekki tillaga um þingrof.

Á ritstjórn ruv.is er einhver greinilega eitthvað óviss um hvað fyrir stjórnarandstöðunni vakir nema fyrir honum vaki að blekkja lesendur vefsíðunnar þar stendur í dag 31. mars: „Stjórnarandstaðan boðar vantrauststillögu og fer fram á þingrof.“ Stjórnarandstaðan hefur einmitt ekki boðað vantrauststillögu heldur þingrofstillögu. Kjarni þingræðisreglunnar er að ríkisstjórn hafi meirihluta þings að baki sér. Reglan snýst ekki um þingrof heldur kann samþykkt vantrausts að leiða til þingrofs.