24.3.2016 16:00

Fimmtudagur 24. 03. 16

Samtal mitt við Brasilíumanninn Luciano Dutra, þýðanda og útgefanda, á ÍNN er komið á netið og má sjá það hér. Í samtalinu birtist einstæður áhugi og dugnaður við að læra íslenska tungu og á að kynna íslenska bókmenningu fyrir hinum stóra, portúgalska málheimi.

Miðað við hvernig aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins skrifaði um forsætisráðherrahjónin 17. mars og lýst var hér á síðunni sama dag á þennan hátt kemur nokkuð á óvart að Sigmundur Davíð skuli í dag velja Fréttablaðið til að skýra sjónarmið sín varðandi aflandsreikning eiginkonu sinnar og gagnrýni á þau hjónin vegna hans.

Þetta þarf þó kannski ekki að vera undrunarefni því að aðalritstjóri Fréttablaðsins, Kristín Þorsteinsdóttir, tók í raun í lurginn á aðstoðarritstjóranum í forystugrein blaðsins þriðjudaginn 22. mars þegar Kristín sagði undir fyrirsögninni Orðhákar:

„En niðurstaða samninga ríkisins við kröfuhafa var með þeim hætti að erfitt er að halda því fram að meintir hagsmunaárekstrar Sigmundar Davíðs hafi orðið honum fótakefli. […] Þess vegna er ómerkilegt að halda því fram að fjárhagsleg tengsl Sigmundar hafi haft áhrif á niðurstöðu viðræðna við kröfuhafa.“

Ágreiningurinn um þetta mál innan ráðandi hóps á Fréttablaðinu hefur ekki verið skýrður. Nú beinist áhugi ritstjórnarinnar og gagnrýni einkum að því hvenær og hvernig forsætisráðherrahjónin greindu frá málavöxtum opinberlega. Það er klassískt umræðuefni hér á landi þegar gagnrýnendur eru komnir í málefnalegt þrot.

Þorbjörn Þórðarson skrifar forystugrein í Fréttablaðið í dag, 24. mars, undir fyrirsögninni Þögnin langa og er þar að finna aðfinnslur við forsætisráðherra fyrir að hafa þagað of lengi sama dag og blaðið birtir við hann langt viðtal sem dregur ekki síður athygli að blaðinu en málstað ráðherrans sem blaðið er hætt að gagnrýna efnislega. Þorbjörn segir til dæmis:

„Ef erlendar eignir eiginkonu forsætisráðherra í Wintris Inc. eru séreignir hennar en ekki hjúskapareignir koma þær ekki til skiptanna í skilnaði. Séu þær séreignir er engin skylda á forsætisráðherra að upplýsa um eignirnar í hagsmunaskráningu. Í prinsippinu á það ekki að skipta máli hvort forsætisráðherrann sé efnaður eða ekki. Hins vegar getur það verið kostur að forsætisráðherrann og maki hans eigi nóg af peningum. Það dregur úr líkum á því að hægt sé að hafa áhrif á ráðherrann og útilokar að hann sé fjárhagslega háður öðrum.“