15.3.2016 14:45

Þriðjudagur 15. 03. 16

Nokkurs óþols gætir greinilega í stjórnarsamstarfinu. Einkum reyna framsóknarmenn að skapa sér sérstöðu. Hið einkennilega er að þeir sækja nú út á vinstrikantinn, þann kant þar sem flokkar eiga helst undir högg að sækja í evrópskum stjórnmálum. Sagan sýnir að því lengra sem framsóknarmenn sækja til vinstri þeim mun minna fylgi fá þeir. Þetta reyndu þeir á tíma viðreisnarstjórnarinnar fyrir hálfri öld og einnig fyrir aldarfjórðungi þegar þeir lögðust gegn aðild að evrópska efnahagssvæðinu. Þeir fóru einnig jafnan illa þegar Framsóknarflokkurinn snerist gegn varnarsamstarfinu við Bandaríkin.

Deilur um utanríkismál einkenna ekki stjórnmálaumræður samtímans hér á landi. Ótrúlega lítil athygli beinist að þeim málaflokki um þessar mundir þótt heimsmyndin sé að breytast og aðstæður í öryggismálum í næsta nágrenni okkar. Þá er ekki heldur deilt á þingi um útlendingamál, helsta hitamál í stjórnmálum nágrannalandanna. Þótt spáð sem allt 1.000 hælisleitendum hér á þessu ári veldur það engum sýnilegum óróleika á alþingi. Virðast þingmenn lifa í þeirri trú að frumvarp frá nefnd allra flokka um útlendingamál sem gengur í öfuga átt við hert lagaákvæði í nágrannalöndunum leysi vandann hér á landi.

Efnahagsmálin, atvinnumálin og ríkisfjármálin valda ekki heldur deilum. Ríkisstjórninni hefur tekist að lækka skuldir þjóðarbúsins í 14% af vergri landsframleiðslu sem er með ólíkindum og felur í raun í sér byltingu í ríkisfjármálum. Þetta virðist stærra mál en stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn skilja, ættu þeir þó að leggja sig meira fram um að skýra það fyrir sjálfum sér og almenningi. Sumir trúa því kannski enn sem var söngur ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og ekki síst Árna Páls Árnasonar, arftaka Jóhönnu, að ekki yrði unnt að ná þeim árangri sem við blasir í skulda- og ríkisfjármálum nema með aðild að ESB og aðstoð frá Brussel og Frankfurt.

Í stað þess að beina athygli að stóru málunum og hinum mikla árangri sem hefur náðst kýs Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra að deila um hvort nýr Landspítali rísi við Hringbraut eða hvort um endurnýjun gamals spítala með nýjum byggingum sé að ræða.

Stjórnarandstaðan er í molum hvað sem líður miklu fylgi pírata. Hugsuðu menn eftir strategískum línum í stjórnarflokkunum veltu þeir fyrir sér kosningum fyrr en síðar til að draga enn betur fram vandræðagang stjórnarandstöðunnar. Þess í stað gefa þeir stjórnarandstöðunni færi á sér með þrasi um einnota mál sem flest leysast af sjálfu sér sé farið að lögum og leikreglum.