4.3.2016 16:40

Föstudagur 04. 03. 16

Samtal mitt við Ingva Hrafn Jónsson sjónvarpsstjóra á ÍNN sem sýnt var miðvikudaginn 2. mars er komið á netið og má sjá það hér. Við ræðum úrslit forkosninganna í Bandaríkjunum þriðjudaginn 1. mars.

Borgarráð samþykkti fimmtudaginn 3. mars 2016 þátttöku Reykjavíkurborgar í stofnun Friðarseturs, Höfði - Reykjavík Peace Center, í samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. Samkvæmt tillögu borgarstjóra er gert ráð fyrir að Reykjavíkurborg verji tíu milljónum króna til verkefnisins. Friðarsetrið verði formlega stofnað samhliða alþjóðlegum viðburðii í tilefni af því að í ár eru 30 ár liðin frá leiðtogafundi Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta og Mikaíls Gorbatsjovs, forseta Sovétríkjanna, í Höfða í októbr 2016. 

Í frétt á ruv.is um málið segir að skrifað hafi verið undir samstarfssamning milli Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands í janúar 2015 um að undirbúa stofnun friðarseturs. Þá hafi komið fram að Jón Gnarr fyrrverandi borgarstjóri yrði formaður ráðgjafarnefndar setursins en að auk hans sætu í henni Silja Bára Ómarsdóttir, fyrir hönd Háskóla Íslands, og Svanhildur Konráðsdóttir, fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

Strax og þetta samstarf var kynnt lá í augum uppi að Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, var hugmyndasmiðurinn enda kynnti hann nýstárlegar hugmyndir, meðal annars um nýtingu Reykjavíkurhafnar í tíð sinni sem borgarstjóri. Taldi hann það meðal annars skref til friðar að banna vinveittum herskipum að heimsækja höfuðborg Íslands. 

Frá janúar 2015 hefur síðan skýrst betur en áður hvernig staðið er að ákvörðunum af þessu tagi í borgarstjórn Reykjavíkur. Litið hefur verið á þær sem kveðjugjöf eða glaðning til þeirra sem hverfa frá störfum í borgarstjórn. Friðarsetrið sem Reykvíkingar eiga í vændum er stofnað til að gleðja Jón Gnarr vegna starfa hans sem borgarstjóri á sama hátt og samþykkt var viðskiptabann Reykjavíkur á Ísrael til að gleðja Björku Vilhelmsdóttur, flokkssystur Dags B. borgarstjóra, þegar hún kvaddi borgarstjórn á síðasta ári.

„Það er biss­ness í friði,“ sagði Jón Gn­arr við und­ir­rit­un sam­starfs­samn­ings á milli Reykja­vík­ur­borg­ar og Há­skóla Íslands um friðar­set­ur I janúar 2015. Þá var sagt að setrið mundi taka til starfa  haustið 2015. Nú er boðað að setrið komi til sögunnar haustið 2016 og tengist leiðtogafundinum.

Nú liggur fyrir að Reykjavíkurborg ætlar að festa 10 m. kr. í friðar „bisness“ Jóns Gnarrs. Hvort og hvenær fjárfestingin skilar arði fyrir aðra en þá sem sitja í ráðgjafarnefndinni eða starfa við setrið er óljóst.