5.3.2016 19:00

Laugardagur 05. 03. 16

 

Charles Moore, breski blaðamaðurinn og opinber ævisagnahöfundur Margaret Thatcher, segir í dálki sínum í vikublaðinu The Spectator, sem út kom í vikunni, að hann hafi heyrt fólk kvarta undan því að David Cameron, forsætisráðherra Breta, hafi valið 23. júní sem dag fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um aðild að ESB þar sem ekki væri unnt að tengja þessa dagsetningu neinum sögulegum viðburði. Moore segir að þetta sé ekki rétt. Hann sé þakklátur fróðum bréfritara sem hafi upplýst sig um að 23. júní sé dagurinn sem sé hefðbundið talinn stofndagur alþingis, þings Íslendinga, árið 930. Þá segir Moore:

„Frægt er þegar Winston Churchill ávarpaði það og olli uppnámi meðal þingmanna þess með fyrri helmingi setningar sinnar og gladdi þá með seinni helmingnum: „Ég kem frá móður þjóðþinga [þögn] til ömmu þjóðþinga.“ Það er einkennilegt að frelsið sem fámennur hópur norrænna manna hafði hugrekki til að krefjast fyrir meira en þúsund árum skuli valda deilum þjóðar á 21. öld um endurreisn þess.“ 

Ég birti þennan texta einnig á ensku lesendum til glöggvunar: Churchill famously irritated its members by the first half of his sentence and gratified them with the second half: ‘I come from the mother of parliaments [pause] to the grandmother of parliaments.' It is strange that the freedom so bravely claimed by a small number of Nordic persons well over a thousand years ago should be a controversial thing for the citizens of a 21st-century nation to want to restore.

Þarna fer eitthvað á milli mála eins og þegar menn eigna Churchill orð annarra. Í síðasta nýársávarpi sem herra Ásgeir Ásgeirsson flutti sem forseti Íslands 1. janúar 1968 rifjaði hann upp ýmislegt sem hann hafði reynt og sagði meðal annars:

 „Og þá minnist ég ekki síst Alþingishátíðarinnar 1930, sem átti ríkan þátt í að efla sjálfstraust Íslendinga og athygli og álit erlendra manna á fámennri, afskekktri þjóð sem átti þúsund ára þingsögu að baki. Einn breski fulltrúinn stóð að vísu fast á því, að breska Parliamentið væri móðir þjóðþinganna, en játaði fúslega, að Alþingi Íslendinga væri þá amma þeirra. Með slíka forsögu getum vér hvorki leyft oss né megum óvirða vort eigið Alþingi. Því ber að halda í hæstum heiðri.“

Rétt er að vona að Charles Moore leiti sér öruggari heimilda við ritun ævisögu Thatcher. Tvö stór bindi hafa þegar birst og beðið er hins þriðja.