23.3.2016 19:20

Miðvikudagur 23. 03. 16

Í kvöld klukkan 20.00 verður frumsýnt samtal mitt á ÍNN við Luciano Dutra frá Brasilíu. Það er forvitnilegt fyrir margra hluta sakir.

Össur Skarphéðinsson skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann segir að næsti forseti verði að feta í fótspor Ólafs Ragnars og verja þjóðina gegn misvitrum ákvörðunum ríkisstjórnar og þingmanna. Má skilja greinina á þann veg að Össur kynni sig sem slíkan mann.

Dæmin sem Össur tekur um varðstöðu Ólafs Ragnars snúast öll um gerðir ríkisstjórnar þar sem Össur sat og taldi sig hafa alla þræði á eigin hendi í samvinnu við Ögmund Jónasson eins og lesa má í ævisögu Össurar um árið 2012. Ólafur Ragnar greip fram fyrir hendur ríkisstjórnarinnar í orðum og gerðum.

Að mati Svans Kristjánssonar, prófessors í stjórnmálafræðum og hugmyndafræðings pírata, fór Ólafur Ragnar langt úr fyrir umboð sitt í pólitískum embættisverkum sínum.

Þegar lesin eru skrif Svans um gjörðir Ólafs Ragnars nú kemur myndin Fantasía eftir Walt Disney frá 1940 í hugann og sá hluti hennar þar sem Mikka Mús er í hlutverki Der Zauberlehrling – lærisveins galdrameistarans - í kvæði Goethes frá 1797. Ekki verður vandinn við að hemja afleiðingar galdranna minni ætli Össur að taka til við að stunda þá.

Ólafur Ragnar varaði við ESB-aðildinni, stjórnarskrárbreytingum og beindi Icesave-samningunum til þjóðarinnar af því að hann vildi þá úr sögunni. Í öllum þessum málum sat Össur sem fastast í ríkisstjórn sem hafði þessi mál efst á stefnuskrá sinni? Ætli hann upplýsi ekki næst að hann hafi verið á móti þeim öllum, aðeins gert það sem Jóhanna og Steingrímur J. fólu honum?

Nú er ljóst að belgískir smáglæpamenn sem ánetjuðust öfgahyggju og fóru til Sýrlands á vit Ríkis íslams stóðu að hryðjuverkunum í Brussel í gær eins og að hryðjuverkunum í París í nóvember. Hér má lesa lýsingu fræðimanns á hvað mótar líf manna af þessu sauðahúsi.

Þá er einnig ljóst að belgískum lögregluyfirvöldum var kunnugt um glæpahneigð mannanna, þeir höfðu hlotið fangelsisdóma eins og lesa má hér.

Belgíska ríkið er sundurtætt og stjórnmálakerfið lamað mánuðum saman á meðan leitast er við að mynda stjórnhæfan meirihluta á þingi. Að baki meirihlutans er jafnan sundurlaus hópur. Afleiðingin er sundrað samfélag. Spurning er hvort voðaverkin leiða til meiri samheldni í þágu borgaralegs öryggis.