10.3.2016 19:00

Fimmtudagur 10. 03. 16

Samtal mitt við Gretu Salóme, fiðluleikara og Evrívisionfara, er komið á netið og má sjá það hér. Greta lætur víða að sér kveða. Hún fer meðal annars í skóla núna og ræðir sigurlag sitt í söngvakeppni Evrópu hér á landi. Í máli sínu leggur hún áherslu á að efla styrk skólabarna gegn neikvæðu áreiti, ekki síst á netinu. Hún þakkar sínu sæla fyrir að vera ekki á grunnskólaaldri núna þegar unnt er að sækja á ungt fólk á netinu og gera því lífið leitt. Sigurlagið fjallar um nauðsyn þess að geta hrundið þessari neikvæðni frá sér eða hleypt henni í gegnum sig, ekki láta hana verða svartan blett á sálinnni.

Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar er í sviðsljósinu vegna þess að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Hildur Sverrisdóttir og Magnús Sigurbjörnsson, hafa vakið athygli á að starfsmenn Reykjavíkurborgar  „hafi fengið einhvers konar tiltal eftir að hafa tjáð skoðanir sínar á opinberum vettvangi án tengsla við starf sitt hjá borginni“.  Anna Kristinsdóttir mannréttindastjóri borgarinna, fer undan í flæmingi í svörum um þetta mál. Mannauðsskrifstofa borgarinnar segir afleiðingar þess að starfsmaður borgarinnar verði uppvís að hatursorðræðu gei leitt til áminningar í starfi og brottreksturs láti viðkomandi ekki af slíku háttalagi eftir áminningu.

„Þetta snýst um að Reykjavíkurborg skiptir sér af tjáningu starfsmanna þegar þeir eru ekki í vinnunni. Þar set ég punkt og maður verður hreinlega frekar þungt hugsi yfir slíku,“ segir Hildur Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, á dv.is þriðjudaginn 8. mars.

Nú er hafin deila milli Sóleyjar Tómasdóttur (VG), formanns mannréttindanefndar, og  píratans Halldórs Auðars Svanssonar, formanns stjórnkerfis- og lýðræðisráðs borgarstjórnar, vegna þessa máls. Halldór hefur leitað upplýsinga  hjá borgarlögmanni um réttarstöðu borgarstarfsmanna. Sóley segir fulltrúa Sjálfstæðisflokks „í ómaklegri aðför“ að mannréttindaskrifstofunni sem hafi það eitt til saka unnið að koma ábendingum frá borgarbúum á framfæri til viðeigandi sviða.

Hvor hefur betur Halldór eða Sóley kemur í ljós. Spruning hlýtur hins vegar að vakna hvor vinnustaðasálfræðingurinn verður kallaður á vettvang til að greiða úr ágreiningnum: sá sem vinnur að sáttum innan þingflokks pírata eða hinn sem vinnur að sáttum innan borgarstjórnarflokks VG.