13.3.2016 14:00

Sunnudagur 13. 03. 16

Flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar laugardaginn 12. mars má að nokkru lýsa sem uppgjafarfundi. Flokksforystan nýtur ekki neins trausts, stefnumálin eru reist á að samkomulag náist fyrir kosningar við aðra flokka – flokkurinn er horfinn frá sjálfstæðri stefnumörkun, tekið skal mið af vilja annarra, einkum pírata.

Á sínum tíma tók Árni Páll Árnason, sitjandi flokksformaður, undir orð Birgittu Jónsdóttur yfir-pírata um stjórnarsáttmála stjórnarandstöðunnar fyrir kosningar, stutt kjörtímabil að þeim loknum til að kollvarpa stjórnarskránni og skipulagi stjórnarráðsins. Nú segir hann fulla ástæðu fyrir stjórnarandstöðuna til að stilla saman sína strengi. Innan Samfylkingarinnar sé hins vegar órætt hve langt menn vilji ganga til samstarfs við aðra. Hann vill þó skýra skuldbindingu „um lykilverkefni fyrir næsta kjörtímabil og að þessir flokkar [stjórnarandstaðan] skuldbindi sig til að reyna myndun meirihlutastjórnar“ fái þeir nægilegt fylgi (ruv.is 13. mars).

Enginn veit hvort Árni Páll verður í kjöri til formanns Samfylkingarinnar í vor. Tveir öruggir frambjóðendur eru: Helgi Hjörvar þinflokksformaður og Magnús Orri Schram, fyrrv. þingmaður.

Helgi Hjörvar segir lykilatriði fyrir stjórnarandstöðuna „að sameinast um fá mál, um stutt kjörtímabil, meðal annars um stjórnarskrárúrbætur, kjaramál og aðildarumsóknina að Evrópusambandinu og skila þeim í heila höfn“. Sundruð  nái hún ekki „árangri gegn sérhagsmunaöflunum hér í landinu“. (ruv.is 13. mars.)

Þetta tal um sérhagsmunaöflin er útslitið og gamaldags en hitt er söngur með pírötum.

Magnús Orri telur brýnt að Samfylkingin vinni „betur í sínum málum“, skerpi aðeins á skilaboðunum, tali skýrar við fólk og gefi sterkar til kynna hvar hún standi. „Umræða um kosningabandalag getur svo komið í kjölfarið, en fyrst þurfum við að vinna okkar heimavinnu,“ segir Magnús Orri á ruv.is 13. mars.

Magnús Orri hafði ekki fyrr kynnt framboð sitt til formanns en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrv. formaður Samfylkingarinnar, setti inn á FB-síðu sína:

 „Forystumaður Samfylkingarinnar í Landsdómsmálinu hefur stigið fram og telur sig vel til flokksforystu fallinn.”

Á vefsíðunni thjodmal.is er rætt um afskipti Magnúsar Orra af landsdómsmálinu eins og lesa má hér. Hann skoraðist undan að taka afstöðu til þess meginatriðis að ekki skuli ákæra neinn nema rökstutt sé að meiri líkur séu en minni á að hann verði ákærður. Hann lék með öðrum pólitískan hráskinnaleik. Á þetta vill Ingibjörg Sólrún minna og sendir því frá sér varnaðarorð.