16.3.2016 16:00

Miðvikudagur 16. 03. 16

Í dag ræddi ég við Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðing í þætti mínum á ÍNN. Samtalið verður fumsýnt kl. 20.00 í kvöld á rás 20.

Samfylkingin hefur verið í sviðsljósinu undanfarið vegna væntanlegs formannskjörs. Árni Páll Árnason formaður hefur farið um landið og rætt við flokksmenn, Helgi Hjörvar þingflokksformaður gefur kost á sér til formanns og einnig Magnús Orri Schram, fyrrverandi þingmaður, sem telur sér helst til tekna að hafa ekki átt aðild að stjórn flokksins eða þingflokki undanfarin þrjú ár. Ný skoðanakönnun á vegum MMR leiðir í ljós að fylgi flokksins minnkar og er nú 7,8%, minna en nokkru sinni í 16 ára sögu flokksins.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, naut stuðnings flestra til að verða forseti Íslands í könnunum þar til hún tók af skarið og sagðist ekki vera í framboði. Vinstri grænir, flokkur hennar, dalar í könnun MMR og nýtur sama stuðnings og Samfylkingin, 7,8%.

Í samtali við Eyjuna í dag segir Árni Páll að það sé „gríðarlegt áhyggjuefni að Samfylking og Vinstri græn tapi fylgi og það fari ekki yfir á Pírata. Við höfum huggað okkur við það síðasta árið í þessu fylgishruni sem við höfum upplifað að fylgið hefur þó alla vega farið þangað. Ef að stjórnarflokkarnir eru allt í einu farnir að ná viðspyrnu þá er það verulegt áhyggjuefni og sýnir enn betur en áður mikilvægi þess að Samfylkingin nái vopnum sínum“.

Árni Páll telur könnunina staðfesta að Samfylkingin þurfi að taka „til hjá sér í grundvallaratriðum“.

Katrín Jakobsdóttir segir við Eyjuna:

Ég hef auðvitað áhyggjur af því að einu flokkarnir sem skilgreini sig sem vinstri flokka séu í þessum kröggum. Stóru málin í samfélaginu nú, ójöfnuðurinn, staða heilbrigðiþjónustu, hvernig núverandi ríkisstjórn hefur afsalað almenningi tekjum, allt þetta eru kjarnamál Vinstri grænna. Þegar afstaða almennings til þessara mála er mæld virðist hann eigi mikla samleið með okkur. Kjósendur virðast hins ekki tengja við flokkinn. Við þurfum því að finna út hvernig við getum komið okkar skýru stefnu til skila til kjósenda. Við þurfum að nýta tímann fram á haustið mjög vel til að greina hvers vegna við náum ekki í gegn.“

Hér var því hreyft í gær að innan stjórnarflokkanna yrðu menn að taka strategískar ákvarðanir með hliðsjón af hinni pólitísku stöðu. Óróleikinn í stjórnarsamstarfinu undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, meðal annars fyrir tilstuðlan hans er í ætt við gamalkunnugan kosningafirðing framsóknarmanna. Íhugi forystumenn stjórnarflokkanna ekki að boða til kosninga haustið 2016 ber það vott um skort á pólitísku hugmyndaflugi.