2.3.2016 15:45

Miðvikudagur 02. 03. 16

Í dag ræddi ég við Ingva Hrafn Jónsson sjónvarpsstjóra í þætti mínum á ÍNN. Hann er nú í Flórída og ræddum við úrslit forkosninganna hjá repúblíkönum og demókrötum í gær.

Hillary Clinton er komin á beinu brautina hjá demókrötum og ekkert virðist geta hindrað að hún verði forsetaframbjóðandi þeirra. Líkur á að hún nái kjöri í Hvíta húsið í nóvember eru miklar.

Donald Trump er fremstur meðal repúblíkana. Hann talar nú um sjálfan sig sem sameiningartákn, hann einn geti fylkt þjóðinni að baki sér. Hann muni sigra Hillary Clinton bjóði hún sig fram. Efasemdir hans um það eiga rætur í grunsemdum um að Hillary hafi staðið rangt að meðferð trúnaðarmála og tölvubréfa þegar hún gegndi embætti utanríkisráðherra í ríkisstjórn Baracks Obama.

Ingvi Hrafn sagði frú Clinton hafa ýtt ölum efasemdum um tölvubréfin til hliðar, það mál yrði henni ekki að fótakefli.

Í sigurræðu sinni í gær lagði frú Clinton áherslu á kærleika og velvild sem Bandaríkjamenn ættu að hafa að leiðarljósi. Hún vill nú sýna mildilegt yfirbragð andspænis bægslaganginum í Trump.

Óli Björn Kárason, ritstjóri Þjóðmála, ritar grein í Morgunblaðið í dag og vitnar meðal annars í orð mín hér í dagbókinni á dögunum um ábyrgð á öryggi ferðamanna. Nefnir hann mörg forvitnileg dæmi um tillögur alþingismanna sem allar bera vott um þá áráttu að líta á ríkið sem allsherjar barnfóstru.

Þessi árátta er síður en svo bundin við þingmenn. Hún setur til dæmis mjög rílan svip á fréttir ríkisútvarpsins. Í Markaðnum, fylgiblaði Fréttablaðsins, birtist í dag einskonar forystugrein um að spáð sé 37% fjölgun ferðamanna í ár miðað við árið 2015, þeir verði alls ríflega 1,7 milljón. Þar birtist gamalkunnur söngur:

Ekki er seinna vænna en að fara að líta heildstætt á ferðamannamál í landinu. Þar er mikilvægasta spurningin sú hvernig fjármagna eigi nauðsynlegar endurbætur á infrastrúktur. Einhver sagði að eðlilegast væri að notendur standi undir slíku.

Sjálfsagt og eðlilegt er að aðgangsgjald sé greitt að ferðamannastöðum. Einnig þarf að finna leið til að láta þá sem ósjálfbjarga verða standa undir kostnaði við björgunaraðgerðir (oftast með því að seilast í ferðatryggingar viðkomandi). Hvort tveggja væri í takti við það sem annars staðar tíðkast.

Hið opinbera þarf að hugsa fyrir því hvernig best er að vinna úr þessum málum. Áður en það verður um seinan.“

Hvers vegan hið opinbera? Löngu er ljóst að ltiið er á allar tillögur þess sem rifrildisefni. Hvers vegan grípa þeir sem hagnast mest á komu ferðamanna ekki til þeirra ráða sem duga til að þjónusta og öryggi sé viðunandi?