26.3.2016 16:00

Laugardagur 26. 03. 16

Í gær vildi ég sannreyna fréttir um stöðugan straum ferðamanna hér um Suðurland. Ókum við að Seljalandsfossi, Skógafossi og í Reynisfjöru. Alls staðar var mikil umferð fólks, rútur og bílaleigubílar.Myndin sem hér má sjá og tekin var í Reynisfjöru sýnir hluta fjöldans sem var þar í roki og hraglanda, skaplegra veður var á Skógum og við Seljalandsfoss.

Við Reynisfjöru er myndarlegt veitingahús, Svarta fjaran, sem stendur svo hátt í landinu að sjá má út á hafið úr gluggum þess. Þar var hvert sæti skipað. Frá húsinu er stuttur spölur niður í fjöruna.

Að sjálfsögðu verður hver sá sem þangað fer að gæta eigin öryggis. Öllum skynsömum mönnum hlýtur að vera ljóst að það er enginn barnaleikur að lenda í soginu frá úthafsöldunni sem þarna brotnar með miklum drunum.

Reynisfjara er einstök frá náttúrunnar hendi. Stuðlaberg og ógnvekjandi drangar í austri en Dyrhólaey í vestri.

Svarti sandurinn hér á landi hefur einnig sérstakt aðdráttarafl. Fyrir nokkru las ég grein eftir blaðamann á The Daily Telegraph í London sem mælti með að menn sæju þennan sand einhvern tíma á lífsleiðinni. Margir dragast greinilega að bandaríska flugvélarflakinu í fjörumálinu á Sólheimasandi því að fjöldi bíla stóð utan vegar þar sem gengið er niður að vélinni.

Boðað hefur verið að sveitarfélagið hér í Rangárþingi eystra ætli að hefja gjaldtöku á bílastæðum við hina vinsælu ferðamannastaði. Það er skynsamleg ráðstöfun sem krefst þess jafnframt að gengið sé frá stæðunum á viðunandi hátt en ekki sé þar á tjá og tundri eins virtist í gær.

Þegar rætt er um öryggi á ferðamannastöðum skiptir mestu að aðgengi sé á þann veg að fólki sé ljóst hvar því er ætlaður staður og hvar varasamt er að fara eða beinlínis bannað. Mér þótti vanta varúðarskilti á gönguleiðinni síðasta spölinn niður í Reynisfjöru auk þess sem bjarghringir mættu sjást betur, þeir kalla á varúð og minna á hættu.

Nú hefur fé verið ráðstafað úr framkvæmdasjóði ferðamála. Umhverfisstofnun fær þar fjármuni, ég hélt að hún væri skrifborðs- og eftirlitsstofnun en til dæmis Landgræðslan væri útivinnu- og framkvæmdastofnun á sviði umhverfisráðuneytisins.

TripAdvisor birti í gær lista yfir 25 vinsælustu borgir þeirra sem nota þessa vinsælu síðu. Reykjavík er þar í 25. sæti, ekki dregur það úr ferðamannafjöldanum.