3.3.2016 15:50

Fimmtudagur 03. 03. 16

Áhugamenn um blaðamennsku og útgáfu frétta og greina á netinu eða í blaði hafa orðið varir við miklr hræringar á mörgum miðlum. Þær hafa stundum leitt til harðvítugra átaka á ritstjórnum þeirra milli þeirra sem skrifa á netið og hinna sem skrifa í blaðið.

Í dag boðar Pierre Collignon, aðalritsjóri Jyllands-Posten uppstokkun á ritstjórn blaðsins til að fella í einn farveg miðlun frétta á netinu og í blaðinu. Hann segir að fyrir dyrum sé að innleiða útgáfulíkan sem hann kallar Online til print og með því verði síðustu múrar milli blaðs og nets brotnir á þann hátt sem ekki hafi áður verið gert. Ætlunin er að nýja útgáfu-aðferðin komi til sögunnar í byrjun maí.

Hann segir að til þessa hafi vinnudagurinn almennt hafist á ritstjórnarfundi eða fundum þar sem ákveðið er hver séu áherslumál dagsins, verkefnum raðað á menn og síðan komið saman að kvöldi til að kanna heimtur og ákveða efni og útlit blaðsins sem út komi næsta dag.

Nú sé almennt litið þannig á að straumurinn sé frá blaði inn á netið en nýja aðferðin geri ráð fyrir að útgáfa frétta sé tímasett á ólíkum tímum sólarhringsins og án skiptingar ritstjórnar milli blaðs og nets.

Skipulagi ritstjórnarinnar verður breytt og einnig tæknilegum lausnum. Ritstjórninni er skipt í deildir og hver deild ber ábyrgð á sínu efni í hvaða formi sem það birtist. Hver blaðamaður er einnig ábyrgur fyrir texta, myndum, tengingu við annað efni á netinu og skrásetningu leitarorða. Yfirmaður hans fylgir síðan efninu eftir og hefur auga með frágangi og gæðum bæði á neti og í blaði.

Aðalritstjórinn segir að flest blöð sem þeir hafi skoðað skipti ritsjórninni milli blaðs og nets. Þeir hafi hins vegar kosið þessa leið og stuðst að verulegu leyti við fyrirmynd frá þýska blaðinu Die Welt en þó gengið lengra í samruna innan ritstjórnarinnar en þar hafi verið gert og meðal annars þróað nýjan hugbúnað og tæknilegar lausnir sem aðrir hafi ekki.

Við sem munum byltinguna sem varð með því að blaðamenn fengu tölvur og setjarar sem áður settu texta í blý hurfu vitum að undan tæknibreytingum verður ekki vikist. Þeir sem telja sér trú um að ekki verði að fylgja kröfum tímans í þessu efni daga fljótt uppi. Það verður spennandi að fylgjast með hvernig til tekst hjá Jyllands-Posten, öflugasta dagblaði Dana.