28.3.2016 16:40

Mánudagur 28. 03. 16

Að kvöldi páskadags setti ég færslu á FB-síðu mína sjá hér um eltingarleik fréttastofu ríkisútvarpsins við forsætisráðherra. Taldi ég gang málsins í fjölmiðlum „skell“ fyrir ríkisútvarpið. Þar hlytu menn að endurmeta stöðu sína. Færslan vakti mikil viðbrögð.

Meðal fjölmargra sem létu í ljós álit sitt var Ove Pálsson sem spurði:

Ert þú, Björn Bjarnason ánægður með framgöngu forsætisráðherra í þessu máli ? Finnst þér að hann sýni heiðarleika gagnvart þjóðinni? Hvers vegna finnst þér það eðlilegt að hann neiti að tala við Ríkisútvarpið og að það sé skömm útvarpsins ?

Ég svaraði:

„Ánægður lýsir ekki skoðun minni á þessu dapurlega máli. Ráðherrahjónin gera grein fyrir máli sínu, þá er að þeim er vegið af fádæma hörku og öllum sem þekkja til vinnubragða á fréttastofu ríkisútvarpsins (þar sem ráðherrann starfaði um tíma) verður ljóst að ekki er ætlunin að afla frétta með eltingarleik við ráðherrann heldur atast í honum á sama hátt og stjórnarandstaðan gerir. Ráðherrann vill ekki taka þátt í þeim gráa leik og ræðir við aðra fjölmiðla: blað, útvarpsstöð og fjölmiðlamann á Bylgjunni sem sérhæfir sig í pólitískum fréttum auk þess sem forsætisráðherrahjónin rita greinargerð í formi spurninga og svara og birta á netinu. Öll sjónarmið ráðherrans komast rækilega til skila án þess að hann fari í gegnum stöðina í Efstaleiti. Að það sé „skömm“ ríkisfréttastofunnar hef ég ekki sagt heldur að málið sé áfall fyrir hana í þeim skilningi að hún situr eftir og minnir á liðna tíð á nýrri fjölmiðlaöld. Allar varnir fyrir fréttastofuna hér á þessum þræði hafa verið pólitískar og mótast af óvild í garð forsætisráðherra sem rennir aðeins stoðum undir þá skoðun að rót eltingarleiksins við ráðherrann sé pólitísk og því ófagleg með vísan til lögbundins hlutverks fréttastofunnar. Heiðarleiki stjórnmálamanna hér eða annars staðar ræðst ekki af því hvort þeir tala við einn fjölmiðil en ekki annan, jafnvel ríkisfjölmiðil. Vandi fréttastofunnar er meiri í þessu máli en forsætisráðherrans hvað sem efnisþáttum þess líður.“

Ég hef ekki rætt efnislegan þátt málsins og rök framsóknarmanna formanni sínum til varnar. Þar virðist um óvenjulega samræmdan málflutning að ræða og að nokkru er skotið yfir markið. Boðað er að ekki séu öll kurl til grafar komin vegna aflandseigna Íslendinga. Í því efni ber að spyrja að leikslokum.