Sunnudagur 20. 03. 16
Áhuginn á að láta gott af sér leiða fyrir land og þjóð er mikill eins og sést í lofsverðum áhuga á að verða forseti Íslands. Í dag bárust fréttir um tvo frambjóðendur Hrannar Pétursson og Guðmund Franklín Jónsson. Að óreyndu hefði enginn talið að svo margir vildu gefa kost á sér til að sinna hinu háa embætti. Þess verður ekki vart að hópur kjósenda standi að baki nokkrum frambjóðendanna.
Hrannar Pétursson bauð blaðamönnum heim til sín í morgun og flutti ræðu þar sem hann rifjaði meðal annars upp að sjö ára gamall hefði hann á leikvelli norður á Húsavík reynt að vekja áhuga félaga sinna á framboði til forseta þegar Vigdís Finnbogadóttir var kjörin 1980. Hrannar sagði:
„Ég veit að sumum finnst það hégómleg ákvörðun að bjóða sig fram til forseta Íslands. En staðreyndin er sú, að forseti Íslands er venjuleg manneskja og embættið er ekki frátekið fyrir dægurstjörnur - stjórnmálamenn eða annað fólk sem telur sig útvalið til starfans. Forsetinn á að vera hluti af þjóðinni, en ekki yfir hana hafinn. Þannig forseti vil ég að verða. Framsýnn en alþýðlegur, venjulegur maður með einlægan áhuga á því að láta gott af mér leiða.[…]
Hann á að beita sér fyrir framförum, nýsköpun í atvinnulífi, menningu og menntun. Hann á að vera helsti talsmaður kynjajafnréttis í landinu og baráttumaður fyrir bættri lýðheilsu. Það eru mín helstu áherslumál. […]
Þetta stóra skref stíg ég að eigin frumkvæði og af einlægum áhuga. Ég er ekki fulltrúi einhverra afla í samfélaginu, sem hafa valið sér frambjóðanda fyrirfram, heldur vil ég tala fyrir málefnum sem mér finnst eiga brýnt erindi við okkur öll.“
Ég hef alls ekki gert upp hug minn til forsetaframbjóðenda, það er ekki tímabært þegar þeir birtast tveir á dag. Ég vitna hins vegar til framboðsræðu Hrannar vegna þess að þar er að finna tón sem ber vott um að frambjóðandanum er þetta hjartans mál. Þetta er tónn sem hefur verið á undanhaldi í opinberum umræðum þar sem persónulegar árásir eða jafnvel svívirðingar eiga meira upp á pallborðið en hlýleiki.
Harka í mannlegum samskiptum einkennir til dæmis pírata, flokkinn sem nú nýtur stuðning flestra í könnunum. Boðskapur forsetaframbjóðenda hefur almennt verið öndverður við þetta. Spurning er hvort þrá eftir meiri mildi í opinberum umræðum ráði miklu um fjölda forsetaframbjóðenda. Sé svo ber að fagna hverjum nýjum frambjóðanda.å