25.3.2016 13:00

Föstudagur 25. 03. 16

Hér var fullyrt í gær að Fréttablaðið teldi ekki efnislega ástæðu til gagnrýni á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra vegna eigna eiginkonu hans erlendis. Ritstjórn blaðsins hefði snúist hugur og gagnrýndi nú ráðherrann fyrir að halda ekki nógu vel á miðlun upplýsinga um málið. Þennan fimmtudag 24. mars birtist ítarlegt viðtal um málið við ráðherrann í Fréttablaðinu. Sama dag ræddi ráðherrann málið við Útvarp sögu.

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, birtir í dag harðorða grein gegn Sigmundi Davíð á vefsíðu sinni og sakar ráherrann um „hroka“ og „sjálfsupphafningu“ í svörum hans vegna málsins. Hann hafi verið í „þægilegum viðtölum“ við fjölmiðla í gær og „þaulskipulögð viðbrögð“ framsóknarþingmanna og annarra úr „innsta hring“ ráðherrans hafi ekki jákvæð áhrif.

Undir lok ádrepu sinnar segir Þórður Snær:

Með því að leggja fram vantrauststillögu [á alþingi] gera stjórnarandstöðuflokkarnir Sjálfstæðisflokkinn, sem mun að mestu verja forsætisráðherra fyrir vantrausti, hins vegar samsekan með Sigmundi Davíð. Þeir neyða samstarfsflokkinn til að verja forsætisráðherra með formlegum hætti. Og halda málinu lifandi.“

Hvað felst í orðinu „samsekur“ í þessu samhengi? Varla er það saknæmt af forsætisráðherra að svara ekki ríkisútvarpinu á þann hátt sem fréttastofa þess kýs? Varla er saknæmt ef blaðamenn leggja ekki nema „þægilegar“ spurningar fyrir forsætisráðherra?

Þórður Snær hefur dæmt forsætisráðherra og vill einnig geta dæmt Sjálfstæðisflokkinn vegna máls sem fellur innan laga og reglna hvað sem stjórnmála- eða siðferðisskoðunum manna líður. Lokasetningin í hinum tilvitnuðu orðum segir í raun alla söguna: „Og halda málinu lifandi.“

Um þetta snýst málið á þessu stigi til dæmis í fréttatímum ríkisútvarpsins. Þar var meðal annars talið fréttnæmt að kvöldi 24. mars að Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, væri „hugsi“ yfir málinu. Stóra spurningin er hvernig og hvort tekst að „halda málinu lifandi“ fram yfir páska.

Nú snýst málið um að valda sem mestum pólitískum óþægindum, einkum framsóknarmönnum og jafnframt sjálfstæðismönnum með því að gera þá „formlega“ verjendur forsætisráðherra og þar með „samseka“. Verða þetta enn höfuðatriðin að loknum páskum?

Undarlegast er að fréttahaukarnir skuli ekki grafast fyrir málið á annan hátt og finna bitastæðar efnislegar hliðar á því í stað þess að einblína á hvort forsætisráðherrann talar við þennan eða hinn.