Mánudagur 09. 03. 16
Í dag ræddi ég við Gretu Salóme tónlistarkonu í þætti mínum á ÍNN sem verður frumsýndur kl. 20.00 í kvöld. Greta er ótrúlega kraftmikil og lætur víða að sér kveða með miklum ágætum.
Að Katrín Jakobsdóttir hafi slegið allar hugmyndir annarra um að hún bjóði sig fram til forseta út af borðinu verður til þess að opna öðrum farvegi til Bessastaða sem annars hefðu verið lokaðir.
Nýlega sagði glöggur almannatengill við mig að hann teldi það til marks um að Össur Skarphéðinsson væri á framboðsbuxunum að þeir sæjust nú oft saman Össur og Einar Karl Haraldsson almannatengill. Færi ekki á milli mála að þeir væru að velta fyrir sér kostum vegna baráttunnar um Bessastaði. Nú sýnist Össur ætla að ná forskoti í umræðunum til að halda aftur af öðrum.
Skömmu eftir að Katrín skýrði frá ákvörðun sinni birti Jakob Bjarnar blaðamaður frétt eða öllu heldur fréttaskýringu undir fyrirsögninni: Yfirgnæfandi líkur á að Össur fari fram í forsetann á visir.is. Þar segir:
„Einstaklingur innan herráðs Össurar hefur tjáð Vísi að afar miklar líkur séu á því að Össur fari fram. Á það hefur verið bent að hann hafi verið býsna forsetalegur undanfarna mánuði“. Þá er vitnað í færslu Össurar á Facebook að kvöldi 8. mars, þar sem birtist mynd af Össuri og Guðna Ágústssyni takast í hendur á skákmóti. „Árið 1996 vorum við einu þingmennirnir sem studdum að lokum Ólaf Ragnar Grímsson opinberlega.,“ segir Össur og Jakob Bjarnar bætir við:
„Össur hefur á sínum stjórnmálaferli löngum eldað grátt silfur við Framsóknarmenn. En, í seinni tíð hafa skot hans á flokkinn verið góðlátlegri en oft áður og þegar hann situr og reykir friðarpípu með Guðna Ágústssyni og ræðir við hann um Ólaf Ragnar Grímsson má ljóst vera hvað klukkan slær. […]
Össur gerir sér fyllilega grein fyrir því, eins og allir sérfræðingar um íslenska pólitík og sögu forseta íslenska lýðveldisins að aldrei hefur nokkur náð kjöri í það embætti án fulltingis kjósenda Framsóknarflokksins.“
Augljóst er af texta Jakobs Bjarnar að hann er skrifaður af samúð með framboði Össurar. Í október 2014 starfaði Guðni Ágústsson fyrir mjólkuriðnaðinn sem átti mjög undir högg að sækja vegna neikvæðra frétta tengda samkeppnismálum. Þá skrifaði Jakob Bjarnar frétt um að Guðni sæi til sólar því að Einar Karl Haraldsson ætlaði að leggja honum lið í áróðursstríðinu. Þræðirnir liggja víða.