Þriðjudagur 08. 03. 16
Verulega hefur færst í vöxt undanfarin ár að þeir sem ekki hafa fengið lýðræðislegt umboð til þess að stjórna einu eða neinu og bera þess vegna ekki ábyrgð gagnvart neinum stilli sér upp með kröfum um að þeir sem hafa umboð eða bera ábyrgð séu strengjabrúður þeirra sem beita mestum þrýstingi eða tala hæst. Fréttastofa ríkisútvarpsins tekur oft að sér milligöngu þeirra sem þannig vilja stjórna. Í fréttaleysi fámennisins rata hin sérkennilegustu mál inn í fréttatíma, til dæmis fámenn mótmæli þeirra sem hafna lögmætum ákvörðunum um brottvísun útlendinga sem hafa lotið íslenskum lögum.
Meðal samtaka sem starfa á þennan hátt hér á landi eru alþjóðasamtök sem kalla sig No Borders en nýlega var sagt frá mótmælafundi á þeirra vegum fyrir framan innanríkisráðuneytisins. Franska deild þessara samtaka hefur látið að sér kveða í Frakklandi, meðal annars vegna niðurrifs búða farandfólks við borgina Calais.
Mánudaginn 25. janúar 2016 birti Le Figaro frétt um franska deild No Borders og er samtökunum lýst sem ultra-gauche, það er lengst til vinstri. Þau hafi látið verulega að sér kveða í Calais og krefjist afnáms landamæra og frjálsrar farar fólks. Þá hafi samtökin einnig staðið að því að rauðmála orðin Nik la France á styttu af Charles de Gaulle, hershöfðingja og fyrrv. Frakklandsforseta, í miðbæ Calais en við hlið styttunnar sé önnur af Yvonne, eiginkonu de Gaulles.
Haft er eftir Xavier Bertrand, nýjum héraðsstjóra í Nord-Pas-de-Calais-Picardie að framkoma No Borders í Calais sé hneykslanleg, það verði að bregðast við henni með refsingu.
Le Figaro segir að No Borders hafi látið að sér kveða í Þýskalandi á tíunda áratugnum. Almennum borgurum sé í nöp við samtökin og haft er eftir manni í samtökum sem láta sér annt um aðkomufólkið í Calais: „Félagar í No Borders eru til leiðinda. Þeir reyna að heilaþvo aðkomufólkið sem hefur aðeins áhuga á að komast til Bretlands.“
Varaborgarstjóri Calais segir að í hópi No Borders séu aðgerðarsinnar frá góðum heimilum sem þekki lög og reglur til hlítar en nýti sér aðkomufólkið til að koma illu af stað í þágu eigin málstaðar.
Eftir ítrekaða áreitni í garð lögreglu og annarra yfirvalda ákvað franska innaríkisráðuneytið í byrjun nóvember að herða eftirlit með No Borders. „Innan raða No Borders eru skráðir aðgerðarsinnar […] sem hafa hag af upplausn og þjáningum farandfólksins, þeir nýta sér þessar þjáningar og þrýsta á að fólkið grípi til örþrifaráða,“ sagði talsmaður franska innanríkisráðuneytisins.