Föstudagur 18. 03. 126
Viðtal mitt við Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðing á ÍNN miðvikudaginn 16. mars er nú komið á netið og má sjá það hér. Bók Gunnars Þórs Þegar siðmenningin fór fjandans til um Ísland og fyrri heimsstyrjöldina kom út fyrir jól og hlaut nýlega íslensku bókmenntaverðlaunin. Var það verðskuldað. Bókin er vel skrifuð og bregður ljósi á kafla í Íslandssögunni sem hefur verið að ýmsu leyti hulinn.
Fréttir frá Brussel herma að leiðtogar ESB-ríkjanna 28 hafi síðdegis í dag náð samkomulagi við Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrkja, um að á sunnudaginn verði gripið til ráðstafana í Tyrklandi til að stöðva straum flótta- og farandfólks frá Tyrklandi til Grikklands. Þeir sem koma ólöglega til Grikklands verða sendir aftur til Tyrklands. Fyrir hvern Sýrlending sem er endursendur geta Tyrkir sent einn Sýrlending til ESB-lands – allt að 72.000 einstaklingum.
Samvinnu Tyrkja tryggði ESB með fjárgreiðslum og fyrirheiti um meiri hraða í ESB-aðildarviðræðum Tyrkja. ESB setti Tyrkjum samtals 72 skilyrði. Hvernig málamiðlun um þau er háttað hefur ekki verið upplýst þegar þetta er skráð.
Tilgangur samkomulagsins er eyðileggja „viðskiptamódel“ smyglaranna sem taka að sér að koma fólki yfir sundin milli Tyrklands og Grikklands, að „viðskiptavinirnir“ átti sig á að þeir séu að kasta fé út í vindinn með því að borga fyrir ferð til Grikklands. Fréttir herma að nú sé meira fólk á bátum á ferð milli Líbíu og Ítalíu en verið hefur um nokkurt skeið sem bendir til nýrra ferðaleiða fólksins sem vill freista gæfunnar í Evrópu hvað sem það kostar.
Áður en samkomulag tókst sögðu ráðamenn á Kýpur að þeir mundu beita neitunarvaldi gegn öllum samningum við Tyrki nema þeir viðurkenndu Kýpur sem sjálfstætt og fullvalda ríki. Svo virðist sem Kýpverjar hafi verið kveðnir í kútinn – líklega með einhverri dúsu eins og tíðkast innan ESB þegar hagsmunir Þjóðverja og annarra stórþjóða eru í húfi. Fyrir Angelu Merkel má líkja því við spurningu um pólitískt líf eða dauða að takist að stöðva stjórnlausan straum aðkomufólks til Þýskalands.