Föstudagur 11. 03. 16
Kosið verður til landsþinga í þremur sambandslöndum Þýskalands, Baden-Württemberg, Rheinland-Pfalz og Sachsen-Anhalt. sunnudaginn 13. mars. Í Frankfurter Allgemeine Zeitung (FAZ) í dag segir að kosningarnar drohen für CDU und SPD zu einem Desaster zu werden. Það er að kosningarnar geti leitt hinar mestu hörmungar yfir CDU, kristilega flokk Angelu Merkel kanslara, og SPD, jafnaðarmannaflokk Sigmars Gabriels varakanslara.
Blaðið kallar daginn Super-Sonntag, ofur sunnudag, og sjaldan eða aldrei fyrr hafi menn beðið jafn spenntir eftir úrslitum í landsþingskosningum. Þetta sé fyrsta tækifæri kjósenda til að láta í sér heyra um innflytjendamál í kosningum til landsþinga og margt bendi til fylgishruns hjá CDU og SPD.
Kosið verður til þýska sambandsþingsins á næsta ári. Segja sérfræðingar FAZ að það jafngilti pólitísku sjálfsmorði fyrir CDU að fórna Angelu Merkel þótt illa fari í kosningunum á sunnudag. Hvað sem líði stefnu hennar í útlendingamálum sé hún enn bjartasta von CDU og höfði sterkar til kjósenda en aðrir forystumenn flokksins.
Blaðið telur öðru máli gegna um Sigmar Gabriel. Honum kunni að verða fórnað fái SPD slæma útreið. Minnt er á að á flokksþingi í desember 2015 hafi hann náð endurkjöri sem formaður með 74% atkvæða. Hann hafi ekki lengur alla þræði í hendi sér. Því er spáð að SPD kunni að verma þriðja sætið í kosningunum og fái minna fylgi en AfD-flokkurinn – Alternative für Deutschland – sem varð til á árinu 2013 gegn evrunni en hefur síðan breyst, skipt um forystu og beitir sér mjög gegn stefnu stjórnar Merkel í útlendingamálum.
Hver sem úrslitin verða hafa þau ekki aðeins áhrif í Þýskalandi heldur allri Evrópu.