21.3.2016 18:30

Mánudagur 21. 03. 16

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, var um skeið fréttastjóri á Stöð 2. Hann veit hvernig menn vinna á fréttastofu ljósvakamiðla. Nú (21. mars) skrifar hann pistil á Eyjuna um hvernig fréttastofa ríkisútvarpsins fjallar um Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins og forsætisráðherra. Segir hann ríkisútvarpið hafa „staðið fyrir herferð gegn forsætisráðherra undanfarna viku og þar hafa öll lögmál hlutlægni látið undan“.

Karl nefnir dæmi máli sínu til stuðnings:

Jón Ólafsson sem Sigmundur Davíð setti af sem formann siðanefndar á vegum forsætisráðuneytisins hafi leikið „lausum hala“ í Kastljósi. Jóhann Hauksson, „spunameistari“ Jóhönnu Sigurðardóttur var kallaður morgunútvarpið með Jóhanni Páli Jóhannssyni, blaðamanni á Stundinni föstudaginn 18. mars. Jóhann Páll tekur á Stundinni í dag pólitíska afstöðu með hvatningu um að stjórnarliðum sé stillt upp við vegg sem ekki verður gert nema með vantrausti á forsætisráðherra.

Karl Garðarsson segir að í kvöldfréttum föstudaginn 18. mars hafi fréttastofan kallað til prófessor Vilhjálm Árnason, sem á sínum tíma kallaði afstöðu Sigmundar Davíðs um að segja nei við Icesave samningum „siðferðilega óverjandi“.“

Að morgni dagsins í dag hafi þó steininn tekið úr þar sem enn á ný voru boðnir til að tjá sig tveir yfirlýstir andstæðingar Sigmundar Davíðs, þeir Róbert Marshall þingmaður Bjartrar framtíðar og Indriði H. Þorláksson hægri hönd Svavars Gestssonar í Icesave samninganefndinni“. Karl telur Róbert „fyrirlíta“ Framsóknarflokkinn. Indriði H. hafi aðeins verið kynntur sem „fyrrverandi ríkisskattstjóri“ þegar hann mætti í morgunútvarpið en hvorki minnst á aðild hans að Icesave-samningagerðinni né að hann hafi verið „hægri hönd Steingríms J. Sigfússonar þegar bankarnir voru gefnir hrægammasjóðunum“.

Karl segir:

„Allt er þetta bullandi hlutdræga fólk bara kynnt sem hlutlausir álitsgjafar í fréttaflutningi Ríkisútvarpsins, í spjalli um fréttir vikunnar og vangaveltum í morgunútvarpi. [...] Ríkisútvarpið hefur loksins fellt grímuna. Hún er ófögur ásjónan sem við blasir. Óvinur nr. 1 er fundinn í Framsóknarflokknum.“

Þetta er hörð, rökstudd gagnrýni frá manni sem veit hvernig standa má að ákvörðunum um að halda lífi í máli á hlutdrægum „fréttalegum“ forsendum. Fréttastofa ríkisútvarpsins krefst þess að Sigmundur Davíð standi fyrir máli sínu. Ætlar hún ekki að gera það sjálf?