27.3.2016 16:00

Sunnudagur 27. 03. 16 - Páskadagur

Gleðilega páska!

Fyrir áhugafólk um sígilda tónlist er mikill fengur að frönsku Mezzo-sjónvarpsrásunum tveimur sem eru nr. 126 og 127 hjá áskrifendum Símans. Þar er flutt tónlist allan sólarhringinn, klassík og jazz. Rás 127 geta þeir notið sem hafa aðgang að HD. Dagskrá stöðvanna er unnt að kynna sér á netinu.

Um páskahelgina eru margar óperur fluttar á þessum rásum en einnig passíur Bachs sem kenndar eru við guðspjallamennina Jóhannes og Mattheus. Að kvöldi laugardags 26. mars var Mattheusar-passían flutt í beinni útsendingu frá konunglegu kapellunni í Versölum.

Á vefsíðunni mezzo.tv segir að ná megi stöðinni í meira en 50 löndunum. Hún kom til sögunnar á tíunda áratugnum og árið 2010 bættist HD-rásin við hina fyrstu. Í grunninn er stöðin frönsk en æ meira efni hennar er þýtt yfir á ensku.

Með því að horfa á stöðina kynnist maður flutningi helstu listamanna heims í bestu tónleikasölum og óperuhúsum.