29.3.2016 20:45

Þriðjudagur 29. 03. 16

Nú kemur í ljós að fréttastofa ríkisútvarpsins vílar ekki fyrir sér að flytja fréttir um tengingu ráðherranna Bjarna Benediktssonar og Ólafar Nordal við lista sem eiga að gefa til kynna að viðkomandi hafi eitthvað óhreint í pokahorninu vegna tengsla við skattaskjól þótt listinn sé greinilega rangur eða úreltur. Á ruv.is má lesa í dag:

„Fyrr í dag greindi Kastljós frá því að nöfn þriggja íslenskra ráðherra og fleira áhrifafólks í íslenskum stjórnmálum væru á listum yfir eigendur aflandsfélaga í skattaskjólum.“

Fréttastofan hefur dögum saman fjallað um einkafjármál forsætisráðherrahjónanna eftir að forsætisráðherrafrúin upplýsti um að fyrirframgreiddur arfur hennar væri geymdur erlendis. Málsmeðferð fréttastofunnar er á þann veg að forsætisráðherra neitar að ræða við hana eins og sagt hefur verið frá hér á síðunni.

Bjarni Benediktsson sendi frá sér yfirlýsingu vegna fréttar ríkisútvarpsins þar segir meðal annars:

„Fyrir tíu árum keypti ég fyrir tæpar 40 m.kr. þriðjungshlut í eignarhaldsfélagi sem Landsbankinn í Lúxemborg hafði stofnað fyrir viðskiptafélaga minn um kaup á fasteign í Dubai. Ég gerði grein fyrir kaupum á félaginu og niðurlagningu þess gagnvart íslenskum skattyfirvöldum og hef alla tíð staðið í þeirri trú að félagið ætti varnaþing í Lúxemborg. Það var ekki fyrr en mér barst ábending frá erlendum blaðamanni að ég komst að því að svo hefði ekki verið, en umrætt félag Falson & Co, var skráð á Seychelles-eyjum. Það hafði þó engin áhrif í skattalegu samhengi.“

Ólöf Nordal segir meðal annars í yfirlýsingu sinni:

„Hvorki ég né eiginmaður minn eigum eða höfum átt hlut í fjárfestingar- eða eignarhaldsfélögum sem skráð eru á Bresku Jómfrúareyjum eða í nokkru öðru landi sem talin eru til skattaskjóla.“

Hún segir eins og Bjarni að fyrir nokkrum dögum hafi hún fengið fyrirspurn frá erlendum blaðamanni og bent honum á að hann hefði ekki réttar upplýsingar.

Spurning er hver sé fréttin í þessu listamáli. Færa má rök fyrir að fréttnæmast sé að erlendir blaðamenn sendi rangar upplýsingar um einkafjármál íslenskra ráðherra til ráðherranna, fái leiðréttingu en samt slái ríkisútvarpið því upp að nöfn ráðherranna séu á listanum.