1.3.2016 15:30

Þriðjudagur 01. 03. 16

Skýringarnar á fylgisleysi Samfylkingarinnar eru margar. Í áranna rás hafa viðbrögð forráðamanna flokksins gjarnan verið þau að flokkurinn sé hluti af „fjórflokknum“ sem eigi undir högg að sækja. Það sé því ástæðulaust að ræða fylgisleysi hans sérstaklega líta beri á „fjórflokkinn“ í heild. Eftir að Samfylkingin fór niður fyrir 10% í könnunum er vitlausa kenningin um „fjórflokkinn“ á undanhaldi.

Nú sést því gjarnan veifað að örlög Samfylkingarinnar hér eigi að skoða í samhengi við hnignun jafnaðarmannaflokka í Evrópu almennt. Alhæfing í því efni stenst þó ekki Samfylkingunni til bjargar. Fylgisleysi hennar er heimatilbúið og skýrist best með því að skoða stefnu og störf flokksins sem fór alvarlega út af sporinu með áherslunni á ESB-aðildina og sósíalismann í stjórn Jóhönnu og Steingríms J.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, berst örvæntingarfullri baráttu fyrir eigin pólitísku lífi og flokks síns. Vopnaburðurðurinn einkennist æ meira af því hve aðþrengdur flokksformaðurinn er eins og þegar hann kaus að líkja nýgerðum búvörusamningi við Icesave-samninginn. Nefndi hann þetta meðal annars í umræðum á alþingi mánudaginn 29. febrúar þegar hann beindi fyrirspurn um búvörusamninginn til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, sem svaraði Árna Páli meðal annars á þennan hátt:

„Það er auðvitað alveg kostulegt að menn skuli bera samning eins og þann sem hér er verið að ræða [búvörusamninginn] — sem kemur í beinu framhaldi af öðrum sambærilegum samningi sem var gerður í þeirri tíð sem hv. þingmaður [Árni Páll] sat í ríkisstjórn, samningi sem var efnislega í öllum aðalatriðum alveg sambærilegur þessum, sambærilegur samningunum sem giltu þegar Samfylkingin var í ríkisstjórn — við það að setja mörg hundruð milljarða gjaldeyri til útlanda fyrir ekkert [með fyrsta Icesave-samningnum], fyrir ekki neitt, án þess að komi neitt gagngjald, bara til þess að kaupa sér frelsi, á sama tíma og menn sögðu að við þyrftum að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna til að losna við höftin. Það er alveg með ólíkindum að menn þori í þá umræðu. Við skulum endilega taka sérstaka umræðu um Icesave-samningana og landbúnaðarmálin, ég óska eftir því að fá að taka þátt í þeirri umræðu.“