23.5.2003 0:00

Föstudagur, 23. 05. 03.

Klukkan 11.00 var ég í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur á útvarpi Sögu og ræddum við saman í klukkustund. Hlustendur gátu hringt og lagt fyrir mig spurningar. Fyrsta spurningin var frá áhyggjufullri konu, sem spurði mig, hvort Gísli Marteinn yrði að hætta á sjónvarpinu, ef hann yrði borgarfulltrúi ef ég hyrfi úr borgarstjórn. Ég sagðist því miður ekki geta svarað þessari spurningu, hún sneri að stjórnendum Ríkisútvarpsins.

Klukkan 13.10 fór ég að heiman að Bessastöðum en klukkan 13.30 hófst þar ríkisráðsfundur til að skipa hina nýju ríkisstjórn. Lauk þeirri athöfn rúmlega 14.00 og þar með einnig myndatökum en síðan tóku fréttamenn viðtöl við okkur nýju ráðherrana, Árna Magnússon félagsmálaráðherra og mig.

Klukkan 15.00 var ég í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og tók þar við lyklavöldum af Sólveigu Pétursdóttur, hitti starfsfólk og átti síðan fund með Stefáni Eiríkssyni, skrifsofustjóra, en Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri var erlendis.

Eftir að hafa verið í símaviðtali við Bylgjuna hélt ég austur að Kvoslæk í yndislegu veðri.