21.5.2003 0:00

Miðvikudagur, 21. 05. 03.

Klukkan 15.00 kom þingflokkur sjálfstæðismanna saman og gerði Davíð Oddsson honum grein fyrir sáttmálanum, sem hann hafði samið um við Halldór Ásgrímsson, og er grundvöllur nýrrar ríkisstjórnar. Jafnframt sagði Davíð frá því, að hann mundi hverfa úr stóli forsætisráðherra 15. september 2004 en Halldór taka við af sér, Sjálfstæðisflokkurinn fengi þá utanríkisráðuneyti og umhverfisráðuneyti í sinn hlut.

Var einhugur innan þingflokksins um efni stjórnarsáttmálans og eftir að hafa hlustað á rök Davíðs samþykktu þingmenn einnig þá skipan á stjórnarsamstarfinu að öðru leyti, sem hann kynnti.

Lauk fundinum skömmu fyrir klukkan 17.00