28.5.2003 0:00

Miðvikudagur, 28. 05. 03.

Ríkisstjórnin kom saman til fyrsta fundar klukkan 09.30 í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Ekki var unnt að funda á venjulegum fundarstað í stjórnarráðshúsinu vegna framkvæmda í Bankastræti og umróts í kringum húsið. Er ekki síður gott að hittast í ráðherrabústaðnum, sérstaklega þegar veðrið er jafngott og það var þennan dag.

Eftir ríkisstjórnarfundinn fékk ég tíma til fyrsta almenna viðtalsins í dóms- og krikjumálaráðuneytinu - en þar eins og áður verð ég með viðtalstíma á miðvikudagsmorgnum. Var undantekning, að ríkisstjórn kom saman á miðvikudegi en fundartímar hennar eru klukkan 09.30 á þriðjudögum og á sama tíma á föstudögum, á meðan þing situr, en utan þingtíma aðeins á þriðjudögum.

Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna kom saman í ráðhúsinu klukkan 16.00 og samþykkti einróma með lófataki, að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson tæki við af mér sem oddviti flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.