Mánudagur, 09. 08. 10.
Þegar skýrsla rannsóknarnefndar alþingis kom út vakti það, sem í henni sagði um stjórnsýsluna, jafnvel meiri athygli, einkum á ljósvakamiðlunum, en hitt, sem í henni stóð, að bankarnir hefðu verið rændir af þeim, sem höfðu takmarkalausan aðgang að lánsfé þeirra, án þess að leggja fram nógu traustar tryggingar.
Aðfinnslur um stjórnsýsluna snerust meðal annars um, að upplýsingum hefði ekki verið miðlað, réttir menn hefðu ekki komið að ákvörðunum, ekki hefði verið brugðist rétt við þeim upplýsingum, sem þó var miðlað og fleira í þeim dúr.
Nú er til umræðu mál, sem segja má, að snerti bankakreppu nr. 2, eftir að dæmt var, að ólöglegt væri að gengistryggja lán, sem veitt voru í íslenskum krónum.
Í ljós hefur komið að innan Seðlabanka Íslands hefur í meira en ár legið álit frá lögfræðistofunni Lex og aðallögfræðingi bankans um, að lán af þessu tagi væru ólögmæt. Ekki nóg með það. Seðlabankinn tilkynnti viðskiptaráðuneytinu um þetta álit í tölvupósti.
Í dag var rifjað upp í sjónvarpi, að Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, sagði alþingi, eftir að álit seðlabankans lá fyrir, að lán af því tagi, sem bankinn taldi ólögmæt, væru lögmæt. Ráðherrann segist nú ekki hafa vitað um álit bankans, þótt það hafi verið kynnt ráðuneyti hans. Hann hafi því sagt alþingi satt!
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, var ekki tekinn við þvi embætti, þegar aðallögfræðingurinn gaf álit sitt. Það breytir að sjálfsögðu engu fyrir bankann, enda kynnti bankinn ráðuneytinu afstöðu sína, þótt Már segi nú, að þetta hafi ekki verið álit bankans! Bankinn hefði ekki tekið neina afstöðu til málsins. Kannski er Már með þessu að reyna milda málið fyrir Gylfa Magnússon. Már fær því að minnsta kosti ekki breytt, að álit bankans lá fyrir og var kynnt ráðuneytinu. Er ástæða til að efast um, að það falli undir góða stjórnsýsluhætti að tala um málið á þann veg, sem Már kýs að gera.
Staðreynd er, að hvorki innan seðlabankans né viðskiptaráðuneytisins var brugðist við þessu áliti eins og yfirstjórn bar að gera. Hún getur ekki afsakað sig með því, að önnur mál hafi verið í gangi, eins og Már, seðlabankastjóri, gerði í Kastljósi kvöldsins.