4.8.2010

Miðvikudagur, 04. 08. 10.

Á sínum tíma var erfitt að stofna til umræðna á fundum borgarstjórnar Reykjavíkur um málefni Orkuveitu Reykjavíkur. Dagskrá var skipulega þannig háttað af þeim Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Alfreð Þorsteinssyni, stjórnarformanni OR, að málefni fyrirtækisins kæmu sem sjaldnast inn í borgarstjórn. Innan stjórnar OR var meira að segja einnig erfitt að fá upplýsingar. Alfreð túlkaði fyrirspurnir um málefni fyrirtækisins gjarnan sem árás á starfsmenn þess.

Eitt sinn hafði ég tök á að vekja máls á því sjónarmiði, að einkennilegt væri, hve OR teldi skynsamlegt að taka mikið af erlendum lánum í ljósi þess, að fyrirtækið hefði aðeins tekjur í íslenskri mynt. Þetta þótti að sjálfsögðu hámark heimskunnar vegna stöðu og styrks OR. Nú er undrast, hve erlendar skuldir OR eru háar, 240 milljarðar króna, heyri ég rétt. Spurt er, hvers vegna svo mikið hafi verið tekið af erlendum lánum. Skýringar finnast í yfirlýsingum stjórnenda OR á fyrstu árum 21. aldarinnar. Ég hef ekki skilið, hvers vegna sjálfstæðismenn stigu ekki á lántökubremsuna eftir 2006.

Þeir smituðust að vísu af útrásarsýkinni eins og REI-málið sýndi, en sáu þó að sér í því.

Ný stjórn í OR segist ætla að velta hverjum steini, áður en hún leggur til hækkun á  vatni og rafmagni. Vonandi birtir hún skýrslu um niðurstöðu athugana sinna. Þá fáum við kannski að vita, hvað höfuðstöðvar OR kostuðu. Farið var með það eins og mannsmorð. Alfreð var líka alltaf í samkeppni við Landsvirkjun og taldi sig geta gert flest betur en gert var innan þess fyrirtækis. Nú var sagt í fréttum, að staða Landsvirkjunar væri mun betri en OR, enda hefði verið staðið betur að málum þar en í OR.