Fimmtudagur, 26. 08. 10.
Mér datt þetta í hug í morgun þegar ég sá grein eftir sr. Þóri Stephensen í Fréttablaðinu, þar sem hann vitnar í ritdóm eftir mig frá 1992 um bók eftir Ketil Sigurjónsson um sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB. Skilst mér, að sr. Þórir telji sig sanna, að í þessum ritdómi segi ég eitthvað, sem stangist á við þá skoðun mína, að með aðild að ESB afsöluðum við okkur forræði á sjávarauðlindinni.
Ég er sannfærður um, að skoðun sr. Þóris stæðist ekki óhlutdrægt mat. Hitt er mér að meinalausu, að menn leiti með stækkunargleri að því, sem ég hef sagt um Ísland og ESB. Ég mundi til dæmis ekki eftir þessum ritdómi. Sé tilgangurinn að hafa mig ofan af þeirri skoðun, að Íslendingar eigi ekki heima innan ESB, er leitin að gömlum greinum mínum um ESB tímasóun. Eigi að nota gamlar greinar til að sannfæra aðra um, að ég hafi aðra skoðun en þá, sem ég hef mótað mér á þessu máli, er ekki heiðarlega að verki staðið.