10.8.2010

Þriðjudagur, 10. 08. 10.

„Telur hann [Gylfi Magnússon] lögmæti myntkörfulána hafið yfir allan vafa?“ spurði Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, viðskiptaráðherra 1. júlí, 2009. Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, svaraði:

„Ég vík fyrst að fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um lögmæti lána í erlendri mynt. Lögfræðingar bæði í viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni hafa vitaskuld skoðað það mál. Niðurstaða þeirra er að lánin séu lögmæt. En það er auðvitað ekki framkvæmdarvaldsins að skera úr um það. Ef það réttarágreiningur í máli sem þessu er það dómstóla þannig að ég tel að telji einhverjir að þessi lán séu ólögmæt þá liggi beinast við að dómstólar skeri úr um það. Það er alla vega hvorki á valdi viðskiptaráðuneytisins né annarra arma framkvæmdarvaldsins að gera það.“

10. ágúst 2010 hefur hæstiréttur dæmt myntkörfulánin ólögmæt. 10. ágúst 2010 hefur einnig verið upplýst, að viðskiptaráðuneytið bjó 1. júlí 2009 yfir upplýsingum um, að lögfræðistofan LEX og aðallögfræðingur Seðlabanka Íslands teldu myntkörfulánin ólögmæt. 10. ágúst 2010 segist Gylfi Magnússon hafa verið að ræða allt önnur lán en Ragnheiður nefndi í fyrirspurn sinni, þegar hann talaði um „lán í erlendri mynt“ og sagði þau lögmæt. Hann vill skýra setningarnar, sem á eftir koma í svari hans á þann veg, að þar hafi hann verið að fjalla um myntkörfulánin. Um þau hafi ríkt réttaróvissa.

Hér skal fullyrt, að enginn, sem hlustaði á Gylfa Magnússon tala í sal alþingis 1. júlí 2009 hafi skilið orð hans á þann veg, sem hann skýrir þau núna. Hann var í svari sínu 1. júlí að slá þann varnagla, að lánin, sem hann sagði lögmæt, kynnu að verða dæmd ólögmæt, af því að dómstólar ættu síðasta orðið um lögmætið.

Að hann skyldi jafnframt fullyrða, að lögfræðingar í „viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni“ hefðu skoðun á málinu, sýnir, að hann vissi, að málið hafði verið skoðað í ráðuneytinu og utan þess en innan stjórnsýslunnar. Hvar? Í Seðlabanka Íslands? Hann segist þó ekki hafa vitað um álit bankans og LEX.

Miðað við stjórnsýslu leyndarhyggju og orðhengilsháttar innan ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur er vafalaust, að Gylfi telur sig komast upp með yfirlýsingar af þessu tagi við ríkisstjórnarborðið. Jóhanna lýsti líka yfir trausti á honum í dag.

Jóhanna gaf sjálf fordæmi í umræðum um launamál Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra. Þá fór hún undan í flæmingi. Nú heimtar Jóhanna skýrslu af seðlabankanum um það, hvers vegna hún fékk ekki að sjá lögfræðiálitið um ólögmæti myntkörfulánanna. Hún veit, að skýrslan breytir engu um gang mála. Beiðnin kann hins vegar að slá ryki í augu einhverra. Hvers vegna birtir Jóhanna ekki skýrslu um launamál Más?