3.8.2010

Þriðjudagur, 03. 08. 10.

Ég verð undrandi þegar ég les, að menn með mína skoðun á aðild Íslands að ESB hafi haft um það forystu innan Sjálfstæðisflokksins á tímum útrásarinnar að leiða Baugsmenn og aðra slíka fjármálafursta til öndvegis og blekkja með því þjóðina. Þess vegna sé ekki unnt að treysta dómgreind minni, þegar kemur að því að ræða ESB-aðildarmálin. Þessu er haldið blákalt fram, um og leið og þess er krafist af sama greinarhöfundi, að menn feti stigu sannleikans í „upplýstri umræðu“ um ESB.

Á tímum útrásarinnar sat ég undir stöðugum árásum Baugsmanna fyrir að siga lögreglunni á þá, sem ég gerði ekki, og ræða um nauðsyn þess, að réttarkerfið lyki sínu verki í Baugsmálinu. Baugsmenn blönduðu sér í prófkjör í Reykjavík til að reyna að koma mér af þingi og Jóhannes í Bónus hóf einka-auglýsingaherferð í sama skyni.

Hafi einhver stjórnmálaflokkur lagt sig fram um að greiða götu útrásarvíkinga og ekki talið nóg að gert í þeirra þágu, er það Samfylkingin undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur frá því fyrir kosningar 2003. Samfylkingin tók síðan við ESB-keflinu af Jóni Ásgeiri sumarið 2008, þegar viðskiptaveldi hans var að molna að innan og hann ákallaði ESB sér til hjálpar.

Það er í góðu samræmi við málefnafátækt ESB-aðildarsinna að bera blak af Baugs-dekri Samfylkingarinnar, þegar þeir boða stefnu hennar í ESB-málum. Hinu má svo ekki gleyma, að Ingibjörg Sólrún taldi rétt að leggja ESB-aðildarumsóknina til hliðar, af því að Össur héldi svo illa á henni. Össur svaraði og sagði, að vandi Samfylkingarinnar væri sá, að óuppgerð væru óheppileg tengsl forystu hennar við ónafngreint viðskiptaveldi, les: Ingibjargar Sólrúnar við Baugsveldið.