Þriðjudagur, 03. 08. 10.
Á tímum útrásarinnar sat ég undir stöðugum árásum Baugsmanna fyrir að siga lögreglunni á þá, sem ég gerði ekki, og ræða um nauðsyn þess, að réttarkerfið lyki sínu verki í Baugsmálinu. Baugsmenn blönduðu sér í prófkjör í Reykjavík til að reyna að koma mér af þingi og Jóhannes í Bónus hóf einka-auglýsingaherferð í sama skyni.
Hafi einhver stjórnmálaflokkur lagt sig fram um að greiða götu útrásarvíkinga og ekki talið nóg að gert í þeirra þágu, er það Samfylkingin undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur frá því fyrir kosningar 2003. Samfylkingin tók síðan við ESB-keflinu af Jóni Ásgeiri sumarið 2008, þegar viðskiptaveldi hans var að molna að innan og hann ákallaði ESB sér til hjálpar.
Það er í góðu samræmi við málefnafátækt ESB-aðildarsinna að bera blak af Baugs-dekri Samfylkingarinnar, þegar þeir boða stefnu hennar í ESB-málum. Hinu má svo ekki gleyma, að Ingibjörg Sólrún taldi rétt að leggja ESB-aðildarumsóknina til hliðar, af því að Össur héldi svo illa á henni. Össur svaraði og sagði, að vandi Samfylkingarinnar væri sá, að óuppgerð væru óheppileg tengsl forystu hennar við ónafngreint viðskiptaveldi, les: Ingibjargar Sólrúnar við Baugsveldið.