Sunnudagur, 08. 08. 10.
Út á við er haldið fram þeirri blekkingu, að Íslendingar hafi ólmir viljað ganga í ESB, eftir að bankarnir hrundu, en síðan hafi Icesave-málið dregið úr stuðningi við ESB-umsóknina. Þetta er blekking vegna þess að krafa Samfylkingarinnar um ESB-aðild á í raun ekkert skylt við bankahrunið. Málsvarar hennar sáu sér hins vegar nýjan leik á borði eftir hrunið til að setja þetta mál á oddinn. Frekja þeirra dugði ekki til að hagga við sjálfstæðismönnum en hún leiddi hins vegar vinstri-græna inn á ESB-aðildarleiðina, af því að þeir þráðu að sitja í ríkisstjórn.
Ekkert af því, sem sagt var, að fylgja myndi umsókninni til batnaðar í efnahags- og stjórnmálum hefur gerst. Hins vegar hefur aðildarbröltið spillt samningsstöðu Íslands vegna Icesave og öllu pólitísku andrúmslofti í landinu.
Þjóðin vill ekki fara inn í ESB, málið er ekki flóknara. Nú á hins vegar með fé frá ESB að gera enn eina tilraunina til að snúa Íslendingum til fylgis við ESB-aðild.