Fimmtudagur, 05. 08. 10.
Í dag kynnti ég mér betur en áður áminningarbréf ESA til ríkisstjórnar íslands vegna Icesave og umsagnir framkvæmdastjórnar ESB um málið. Því betur, sem lögfræðileg hlið málsins er skoðuð, þeim mun betur verður ljóst, að ESB og ESA eru að skella skuld á Íslendinga, sem er með öllu óréttmæt. Að þessir aðilar skuli túlka tilskipun ESB um innlánstryggingarkerfi á þennan veg gagnvart Íslendingum er með ólíkindum. Hitt er þó verra, að Steingrímur J. Sigfússon hefur engan skilning á þessum lögfræðilegu álitamálum og lítur á hlutverk sitt að semja.
Ábyrgð embættismanna utanríkisráðuneytisins í þessu máli er mikil. Þeir hafa greinilega ekki lagt stjórnmálamönnum þau rök í hendur, sem við blasa, til að halda að erlendum stjórnvöldum og þó sérstaklega ESA og ESB til að brjóta málflutning þeirra á bak aftur. Utanríkisráðuneytið lítur á Icesave, sem tæknilega hindrun á leiðinni inn í ESB og vill, að um hana sé samið, svo að unnt sé að sinna hinu háleita markmiði að koma Íslandi í ESB af meiri þunga en áður.
Hér má lesa samantekt mína um ESA, ESB og Icesave.