28.8.2010

Laugardagur, 28. 08. 10.

Ókum norður á Akureyri í prýðilegu veðri. Það kólnaði eftir því sem norðar dró og greinilega hafði snjóað í efstu fjallsbrúnir, þegar litið var til þeirra úr Skagafirði.

Klukkan 16.00 var menningarhúsið Hof opnað formlega á Akureyri við hátíðlega athöfn og með góðri dagskrá. Ég minnist þess vel frá ársbyrjun 1999, þegar ríkisstjórnin samþykkti að reisa menningarhús utan Reykjavíkur samtímis því, sem tillaga mín um tónlistarhús í Reykjavík var samþykkt.

Ég skrifaði hér á síðuna 8. janúar 1999:

Fimmtudaginn 7. janúar var svo efnt til blaðamannafundar í Ráðherrabústaðnum. Forsætisráðherra boðaði til fundarins og auk hans sátum við utanríkisráðherra og félagsmálaráðherra fundinn. Með því að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson formenn stjórnarflokkanna voru á þessum fundi var áréttað, að efnið, sem þar var kynnt, ætti öflugan pólitískan stuðning. Þarna var verið að kynna tillögu um, að reist verði á næstu árum svonefnd menningarhús á Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Egilsstöðum og í Vestmannaeyjum. Næsta skrefið er, að ég skipa nefnd til að vinna að þessu verkefni.

Þessar hugmyndir um menningarhús eru í samræmi við ábendingar um það, að menning og menntun skipti miklu, þegar leitað er úrræða til að tryggja búsetu um land allt. Verður spennandi að sjá, hvernig tekst að vinna úr þessu máli á næstu árum. Ég hef orðið var við, að ýmsir staldra við, þegar við blasir, að ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um fimm staði í þessu efni. Er það þó forsenda þess, að skipulega verði að málinu unnið, síðan þarf að raða þessum stöðum í forgangsröð, því að forsætisráðherra kynnti á blaðamannafundinum, að stefnt yrði að því að ljúka verkefninu á tíu árum eða svo og eðlilegt væri, að kostnaðarskipting yrði 60% hjá ríki og 40% hjá sveitarfélögum.

Nú þegar tæp tólf ár eru liðin frá þessari samþykkt er hið glæsilega menningarhús, Hof, risið á Akureyri. Var ánægjulegt að verða þess var í dag, hve vel áheyrendur fögnuðu öllum, sem fram komu við athöfnina í Hofi. Ekki síst snerti það marga, að Kristján Jóhannsson, Akureyringur og stórsöngvari, skyldi syngja Hamraborgina með sinfóníuhljómsveit Norðurlands.

Á öðrum stöðum, sem nefndir voru í samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því í janúar 1999. hefur einnig verið unnið að framkvæmd hennar. Ísfirðingar hafa eignast góðan tónlistarsal og endurgert Edinborgarhúsið. Skagfirðingar hafa einnig ráðist í endurbætur á eldri húsum. Enn vantar sal á Austfjörðum, sem um var rætt, að risi á Egilsstöðum, þótt ráðist hafi verið í endurbætur á mögum menningarmannvirkjum. Í Vestmannaeyjum hafa verið hugmyndir um gerð menningarhúss í eldhrauninu.