29.8.2010

Sunnudagur 29. 08. 10.

Fyrir hádegi ókum við um Eyjafjarðarsveit og komum meðal annars að minningarlundi um Jón Arason biskup á fæðingarstað hans að Grýtu.

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands efndi til tónleika í menningarhúsinu Hofi klukkan 16.00 undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar. Salur hússins var þéttsetinn.

Tónleikarnir hófust á verkinu Hymnos, Op. 45 eftir Hafliða Hallgrímsson, sem samið var sérstaklega fyrir hljómsveitina í tilefni af því, að Hof er opnað. Verkið var einnig flutt á hátíðinni í Hofi í gær en nú hafði Hafliði bætt við klukknaspili í lokin, sem vísaði til Akureyrarkirkju og gaf það verkinu aukið gildi.

Víkingur Heiðar Ólafsson lék einleik í píanókonsert eftir Edvard Grieg við mikla hrifningu áheyrenda.

Tónleikunum lauk með sinfóníu Dvoráks Úr nýja heiminum og sagði Guðmundur Óli, að verkið minnti á, að Sinfóníuhljómsveit Norðurlands flytti nú í nýjan heim í Hofi.

Hljómburður í salnum er góður og til fyrirmyndar, hve rúmt er á milli bekkja. Fyrir hlé hitnaði um of í salnum. Hljómlistarmönnunum var innilega fagnað með bravóhrópum í lok tónleikanna.

Í gærkvöldi var opið húsi í Hofi á Akureyrarvöku og gestum boðið kaffi og kleinur. Heyrði ég, að drukknir hafi verið 600 lítrar af kaffi, svo að talsverður hópur folks hefur nýtt sér tækifærið til að skoða hið glæsilega hús.