12.8.2010

Fimmtudagur, 12. 08. 10.

Hér má lesa frásögn á vefsíðu BBC af hvalveiðum Íslendinga og tengslum þeirra við ESB-aðildarumsóknina. Enginn íslensku viðmælandanna nefni hvalreka, whaledrift, og gildi hans fyrir afkomu Íslendinga um aldir. Um skiptingu hvals, sem rak á land, giltu fastmótaðar reglur, svo að allir fengju að njóta á tímum harðræðis. Þá er ástæðulaust að gleyma því, að Bandaríkjamenn gengu hvað harðast fram við hvalveiðar. Þótt þeir hafi samviskubit, er ástæðulaust af þeim að ætla, að aðrir sýni sömu drápsgleði.

Grænlendingar eru eina þjóðin, sem hefur sagt sig úr ESB. Þeir gerðu það árið 1985 og vildi 53% þeirra, sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, vera utan ESB. Ein af ástæðunum var andstaða íbúa ESB-ríkja við hvalveiðar og selveiðar.

Fyrir tæpum tveimur áratugum, þegar ég sat á þingi Evrópuráðsins, sættu Íslendingar sig við hvalveiðibann, þótt við vildum einnig halda rétti okkar til veiðanna á loft. Stóð ég meðal annars fyrir því, að nokkrir breskir íhaldsþingmenn komu hingað til lands til að kynnast sjónarmiði okkar til hvalveiða.

Ég lagði ekki í að bjóða Tony Banks, þingmanni Verkamannaflokksins, sem síðar varð íþróttamálaráðherra, en er nú látinn fyrir aldur fram. Eitt sin þegar hvalamál voru til umræðu á Evrópuráðsþinginu og minnt var á, að hvalveiðar skiptu máli vegna fæðuöflunnar, stóð Tony Banks upp, flutti innblásna ræðu og sagði meðal annars: „Ef þeir geta ekki lifað, án þessa að éta hval, segi ég bara: Látum þá éta hvern annan."

Þingmenn i Þýskalandi og á ESB-þinginu setja sem skilyrði fyrir aðild Íslands að ESB, að við föllum frá hvalveiðum. Illskiljanlegt er, hvernig Diana Wallis, ESB-þingmaður með áhuga á aðild Íslands, getur ímyndað, að unnt sé að ná sáttum um framhald íslenskra hvalveiða og aðild Íslands að ESB.