27.8.2010

Föstudagur, 27. 08. 10.

Klukkan 17.30 úthlutaði Samband ungra sjálfstæðismanna frelsisverðlaunum, sem kennd eru við Kjartan Gunnarsson, fyrrv. framkvæmastjóra Sjálfstæðisflokksins,  við hátíðlega athöfn. Verðlaunin hlutu Brynjar Níelsson, hrl., vegna staðfestu sinnar í þágu frelsis í skrifum sínum og afstöðu og Indefence-hópurinn, sem berst gegn því, að gengið verði undir Icesave-okið.

Ég hef stundum nefnt lítinn dálk efst á leiðarasíðu Fréttablaðsins húskarlahorn blaðsins, því að þar er komið á framfæri skoðunum um menn og málefni í þágu eiganda blaðsins.

Í gær nefndi ég hér á þessum stað, að grein sr. Þóris Stephensens um það, sem ég hefði sagt árið 1992 í ritdómi um bók um sjávarútvegsstefnu ESB, minnti mig helst á lúsarleit Baugsmanna á tíma Baugsmálsins að öllu, sem ég hefði sagt og gæti gagnast þeim í málaferlunum.

Húskarlahorn Fréttablaðsins var þá gjarnan notað til að árétta hagsmuni eigenda Baugsmiðlanna. Þetta endurtekur sig í dag, þegar einn húskarlanna býsnast yfir því, að ég hafi ekki skrifað um grein sr. Þóris á síðu Evrópuvaktarinnar og gefur til kynna, að það snerti mig eitthvað illa, að minnt sé á hana. Spuni af þessu tagi sannfærir mig aðeins enn frekar um, hve mikla áherslu Baugsmenn leggja á ESB-málin og telja mikilvægt, að fjölmiðlar þeirra séu nýttir til áróðurs fyrir aðild.  Allt í sama anda og á tíma Baugsmálsins.