Föstudagur, 27. 08. 10.
Ég hef stundum nefnt lítinn dálk efst á leiðarasíðu Fréttablaðsins húskarlahorn blaðsins, því að þar er komið á framfæri skoðunum um menn og málefni í þágu eiganda blaðsins.
Í gær nefndi ég hér á þessum stað, að grein sr. Þóris Stephensens um það, sem ég hefði sagt árið 1992 í ritdómi um bók um sjávarútvegsstefnu ESB, minnti mig helst á lúsarleit Baugsmanna á tíma Baugsmálsins að öllu, sem ég hefði sagt og gæti gagnast þeim í málaferlunum.
Húskarlahorn Fréttablaðsins var þá gjarnan notað til að árétta hagsmuni eigenda Baugsmiðlanna. Þetta endurtekur sig í dag, þegar einn húskarlanna býsnast yfir því, að ég hafi ekki skrifað um grein sr. Þóris á síðu Evrópuvaktarinnar og gefur til kynna, að það snerti mig eitthvað illa, að minnt sé á hana. Spuni af þessu tagi sannfærir mig aðeins enn frekar um, hve mikla áherslu Baugsmenn leggja á ESB-málin og telja mikilvægt, að fjölmiðlar þeirra séu nýttir til áróðurs fyrir aðild. Allt í sama anda og á tíma Baugsmálsins.