Föstudagur, 13. 08. 10.
Síðdegis skrifaði ég pistil hér á síðuna um vandræði Gylfa Magnússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra. Tel ég þau þess eðlis, að hann hljóti að hverfa úr ríkisstjórninni. Geri hann það ekki, sannast enn, hve illa er haldið á forystu ríkisstjórnarinnar. Fréttir bárust síðdegis, að þau hefði náð sambandi hvort við annað Jóhanna Sigurðardóttir og Gylfi, hefði hún kallað hann á teppið.
Mér finnst ótrúlegt, hvað stjórnarandstaðan sýnir ríkisstjórninni mikið langlundargeð. Aðhaldsleysi af hálfu stjórnarandstöðunnar verður aðeins til að gera illt verra.
Nú er boðað, að taka eigi upp að nýju viðræðuþráðinn um Icesave. Til hvers? Í ljós hefur komið, að allar hrakspár, um hvað myndi gerast, ef ekki yrði samið um Icesave, hafa reynst rangar. Það stendur ekki steinn yfir steini í þeim hræðsluáróðri. Forseti ESA hefur gert stofnun sína vanhæfa til að fjalla frekar um málið. Þótt ESB taki undir með niðurstöðu ESA, af því að hún fellur að hagsmunum ESB, eru rökin fyrir niðurstöðunni ekki hin sömu. Sýnir það enn, hve veikur málstaður Breta og Hollendinga er.
Málstaður þeirra, sem neita að játast undir ESA-skuldirnar, styrkist eftir því, sem lengri tími líður án samninga. Nauðsyn þess að látið sá málið reyna fyrir dómi, verður einnig augljósari. Ástæðuslaust er fyrir stjórnarandstöðuna að rétta ríkisstjórninni hjálparhönd í þessu máli. Hvernig væri að krefjast þess af forsætisráðherra og utanríkisráðherra, að þau berðust fyrir málstað þjóðarinnar en lægju ekki í ESB-duftinu?