11.8.2010

Miðvikudagur, 11. 08. 10.

Í kvöld ræddi ég við Pál Winkel, fangelsismálastjóra, í þætti mínum á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Þyngri refsingar fyrir fíkniefnabrot og kynferðisbrot auk skilvirkari löggæslu hefur leitt til þess, að fangelsi eru yfirfull og biðlisti eftir að komast í afplánun lengist. Vorum við Páll sammála um, að löng fangelsisvist væri ekki endilega bestu viðbrögð samfélagsins við afbrotum. Önnur betrunarúrræði kynnu að vera betri fyrir allan þorra brotamanna.

Hér á landi eru 44 á 100 þúsund íbúa í fangelsum í Bandaríkjunum er þessi tala 700 á 100 þúsund íbúa. Refsigleði bandarískra yfirvalda er komin út í öfgar eins og nýlega var rakið í vikuritinu The Economist. Þingmenn láta undan þrýstingi þeirra, sem krefjast sífellt þyngri refsinga, af því að það er helst til pólitískra vinsælda fallið. Sömu þróunar gætir hér á landi. Dómarar hafa sætt gagnrýni, ef þrýstihópi finnst þeir ganga of skammt í dómum sínum í einstökum málaflokkum.

Sé litið til afstöðu vegna efnahagsbrota, hefur hún gjörbreyst eftir bankahrunið. Fram að því lá í loftinu, að eitthvert réttarhneyksli hefði verið framið með því að ákæra Baugsmenn fyrir að „borga kók með röngu kreditkorti“ eins og einhver afsakandi þeirra orðaði það. Þá virtust margir sjá eftir hverri krónu, sem varið var til saksóknar gegn Baugsmönnum og mikið var látið með þá skoðun, að ákæran hefði verið alltof víðtæk. Spurning er, hvort nú þyrfti að verja fimm milljörðum króna á fáeinum árum til að rannsaka efnahagsbrot á vegum sérstaks saksóknara, ef dómarar hefðu tekið ákæruliði í Baugsmálinu öðrum tökum. Við þeirri spurningu fást aldrei svör, en víst er, að andrúmsloftið í þjóðfélaginu er nú þannig, að líklegra er en áður í 50 ár, að alþingi samþykki í haust fjárveitingu til að reisa fangelsi fyrir gæsluvarðhaldsfanga, konur og skammtímavistun í Reykjavík.