1.9.1998 0:00

Þriðjudagur 1.9.1998

Síðdegis svaraði ég spurningum þeirra Hrafn og Jakobs á þjóðbraut Bylgjunnar um málefni RÚV. Vildu þeir vita, hvort ég hefði samþykkt 11% hækkun á afnotagjöldum RÚV, sem er ekki. Þá minntust þeir einnig á skipulag RÚV og sagðist ég sjá það fyrir mér, að sett yrðu almenn útvarpslög, þar sem tekið yrði á öllum þáttum útvarpsmála, síðan yrði sett sérstök löggjöf um RÚV og stofnuninni breytt í hlutafélag í eigu ríkisins, það væri eina skynsamlega leiðin til að RÚV gæti haldið áfram að dafna við núverandi aðstæður, hvort þetta gerðist meðan ég sæti í stól menntamálaráðherra væri óvíst, þar sem kosningar yrðu næsta vor. Þá vildu þeir vita afstöðu mína vegna umræðna um innri málefni fréttastofu sjónvarpsins. Sagðist ég ekki sjá neitt athugavert við, að menn gagnrýndu fréttir þeirrar stöðvar eins og annarra og stjórnmálamenn hefðu að sjálfsögðu fyllsta rétt til að gera það, sjálfur væri ég oft í þeim stellingum á heimasíðu minni. Þá væri ekkert heldur athugavert við, að maður í opinberu starfi hjá RÚV nýtti sér þann rétt, sem opinberir starfsmenn hafa til að skjóta málum til yfirboðara sinna, teldu þeir á sér brotið. Ekki sagðist ég vilja gefa Helga H. Jónssyni neina einkunn í beinni útsendingu, gömlum skólabróður og sessunaut í menntaskóla. (Innan sviga er ég mest undrandi á því, hve mjög Dagur lætur þessi málefni fréttastofu sjónvarpsins til sín taka, er engu líkara en blaðið líti á sig sem einhverja samvisku RÚV og allar hræringar þar snerti blaðið með sérstökum hætti.) Skömmu eftir þetta símaviðtal fór ég í höfuðstöðvar Viðskiptablaðsins í Brautaholti og tók þar þátt í beinni útsendingu þaðan um Bylgjuna, það er var viðmælandi í Viðskiptahorni, sem blaðið stendur fyrir fimm daga vikunnar. Ræddum við einkum um áhuga bandaríska kvikmyndafyrirtækisins Miramax á því að fá hér starfsaðstöðu. Einnig drápum við á stöðu íslenskrar kvikmyndagerðar. Bar ég saman hin mismunandi viðhorf, sem eru milli Bandaríkjamanna og Evrópumanna, þegar rætt er um kvikmyndagerð. Hinir fyrrnefndu leggja mesta áherslu á að ná til áhorfenda, þeir nýta sér markaðinn til hins ýtrasta og reka stóriðnað með miklum hagnaði. Hinir síðarnefndu líta á sig í varnarstöðu gagnvart Bandríkjamönnum, vilja opinberar reglur og styrki til að tryggja starfsaðstöðu sína. Óli Björn, ritstjóri Viðskiptablaðsins, benti á, að í Bandaríkjunum væri stór heimamarkaður en ekki hér. Ég benti, að ekki hefðum við stóran heimamarkað fyrir fisk en værum þó eina þjóðin í okkar heimshluta, sem ekki hefði opinbert styrkjakerfi fyrir útgerð og fiskvinnslu, græddum á tá og fingri og værum öðrum fyrirmynd á þessu sviði. Keppinautarnir berðust í bökkum þrátt fyrir allt styrkjafarganið. Hér kann að vera ólíku saman að jafna, en hitt er þó staðreynd, að sjálfskaparviðleitnin tapast fljótt hjá þeim, sem bíða eftir því að tékkinn berist til þeirra úr ríkissjóði eða opinberir aðilar setji þeim markmið og starfsramma.