4.9.1998 0:00

Föstudagur 4.9.1998

Klukkan 15.00 var hátíðleg athöfn í Borgarleikhúsinu, þegar Viðskiptaháskólinn í Reykjavík var settur í fyrsta sinn. Var ég í hópi þeirra, sem fluttu ávörpvið þetta tækifæri. Er undravert að sjá á hve skömmum tíma þessari hugmynd um nýjan háskóla hefur verið hrundið í framkvæmd, eftir að hún komst af umræðustiginu. Aðbúnaður hans í nýju skólahúsi er eins og best verður á kosið. Voru mikil og góð hvatningarorð flutt við skólasetninguna. Miklar kröfur eru gerðar til nemenda og kennara. Er ég ekki í nokkrum vafa um, að þessi nýi skóli hefur góð áhrif á allt háskólastigið. Æ fleiri hafa orð á því við mig, að þeir vilji fá tækifæri til að reyna sig í skólarekstri á sömu forsendum og Viðskiptaháskólinn og Samvinnuháskólinn eru reknir, það er sem einkaskólar í samningsbundnum tengslum við menntamálaráðuneytið um fjármál og gæðaeftirlit.