21.9.1998 0:00

Mánudagur 21.9.1998

Þótt vélin frá Færeyjum væri tveimur tímum of sein náði ég þó að skjótast í Safn Sigurjóns Ólafssonar og taka þar þátt í athöfn í tilefni af því, að gengið hefur verið frá skipulagsskrá fyrir Listaháskóla Íslands. Sé ég í blöðunum í dag, að auglýst er eftir rektor skólans. Þar með er ýtt úr vör á grundvelli hugmynda, sem ég tók þátt í að móta á árunum 1992 til 1993 og miða að því að Listaháskóli Íslands verði einkaskóli, sem starfi á grundvelli samnings við ríkið um fjárveitingar. Með stofnun skólans rætist gamall draumur margra og ný vídd kemur inn í menntakerfi okkar. Varð ég þess vegna undrandi á því, þegar ég las Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins í dag, þar sem fjallað var um háskólastigið, að ekki skyldi minnst á þennan merka atburð, að enn sé nýr háskóli sé að hefja störf. Með réttu er Viðskiptaháskólanum í Reykjavík fagnað í Reykjavíkurbréfinu og kveður nú við annan tón í blaðinu en fyrir nokkrum misserum, þegar þar birtist neikvæður leiðari um þann skóla og því var velt fyrir sér, hvort ekki væri nær að efla Háskóla Íslands en huga að stofnun nýs viðskiptaháskóla. Réttilega er farið góðum orðum um Háskólann á Akureyri og mikilvægt hlutverk hans. Á hinn bóginn er þessi ekki getið í Reykjavíkurbréfinu, að öllu háskólastarfi í landinu hefur verið búin ný umgjörð með nýjum lögum um háskóla. Er nú verið að laga alla háskóla að almennu lögunum en Kennaraháskóli Íslands er fyrsti skólinn, sem starfar samkvæmt þeim. Kennraháskólinn hefur um nokkurt skeið stundað mikla fjarkennslu og hitti ég meðal annars einn nemanda hans, sem er búsettur í Færeyjum. Í Reykjavíkurbréfinu segir, að ekki hafi tekist að finna hlutverk við hæfi í Reykholti í Borgarfirði, án þess að það sé rökstutt nánar. Fyrir þann sem lifir og hrærist í þessum málum er engu líkara en höfundur Reykjavíkurbréfsins hafi takmarkaða sýn á það, sem er að gerast á háskólastiginu, almennt og að því er varðar einstaka skóla, og átti sig til dæmis ekki til fulls á áhuga hvarvetna á landinu á því að bjóða símenntun og endurmenntun, þar sem framhaldsskólar og háskólar taka höndum saman og fjarkennsla er nýtt, þar má nefna Fræðslunet Austurlands eða Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og áform um svipaðar miðstöðvar á Vesturlandi og Suðurlandi. Snorrastofa starfar í Reykholti og sérstök nefnd vinnur nú að því að þróa hugmyndir um miðaldafræðastarf þar auk þess sem ráðist verður í viðgerð á gamla skólahúsinu með það fyrir augum, að það nýtist Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni, einkaaðilum gengur vel að reka hótel allt árið í Reykholti, sem er forsenda fyrir fjölbreyttu starfi á staðnum. Það er því ekkert tómarúm í Reykholti, þótt framhaldsskólinn hafi hætt þar vegna skorts á nemendum. Á hinn bóginn er auðvitað matsatriði, hvað er við hæfi í Reykholti eða annars staðar.